Hagfræðideild Landsbankans spáir því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands muni halda meginvöxtum bankans óbreyttum í 0,75% við næstu vaxtaákvörðun þann 24. mars.
„Við teljum að þróunin frá síðasta fundi nefndarinnar og nýjar hagtölur gefi tilefni til að ætla að vaxtalækkunarferlinu sé lokið. Gangi áætlanir um bólusetningar gegn Covid-19-veirunni eftir í grófum dráttum teljum við líklegt að næstu vaxtabreytingar verði til hækkunar,“ segir í tilkynningu sem bankinn hefur sent frá sér.
Síðasta vaxtaákvörðun nefndarinnar var 3. febrúar og var stýrivöxtum þá haldið óbreyttum.
„Samhliða ákvörðuninni kom út eintak af Peningamálum með uppfærðri verðbólgu- og þjóðhagsspá. Í Peningamálum spáði Seðlabankinn að verðbólga yrði 3,9% á fyrsta fjórðungi ársins. Verðbólgan var 4,3% í janúar og 4,1% í febrúar. Verðbólguspá okkar fyrir marsmánuð gerir ráð fyrir 0,45% hækkun verðlags milli mánaða,“ segir í tilkynningunni.
„Ef það gengur eftir verður ársverðbólgan í mars 4,3% og meðalverðbólga á fyrsta ársfjórðungi yrði 4,2%. Til þess að verðbólguspá Seðlabankans gangi eftir þarf verðlag að lækka um 0,5% milli febrúar og mars, en við teljum afar ólíklegt að það muni gerast. Verðbólga verður því að öllum líkindum meiri en Seðlabankinn spáði.“
Hagfræðideildin bendir á að þrátt fyrir þetta hafi spár varðandi verðbólguþróun þessa árs ekki breyst verulega í eðli sínu.
„Liðin verðbólga skýrist að miklu leyti af veikingu krónunnar og um leið og þeirra áhrifa hættir að gæta í 12 mánaða verðbólgu mun verðbólgan leita aftur niður á við. Þetta er því meira spurning um tímasetningu, hvort verðbólga fer niður í markmið á þessu ári eða næsta, en ekki hvort hún hjaðnar yfir höfuð.
Við teljum enn verulegar líkur á að verðbólga lækki aftur niður í markmið á þessu ári. Auknar verðbólguvæntingar í Bandaríkjunum í kjölfar þess að þingið samþykkti mjög umfangsmikinn örvunarpakka í opinberum fjármálum, gæti sett tímabundið strik í reikninginn.“
Tekið er fram að þjóðhagsreikningar síðasta árs sýni minni samdrátt hagvaxtar og meiri eftirspurn en Seðlabankinn spáði við síðustu vaxtaákvörðun.
„Landsframleiðslan dróst saman um 6,6% á síðasta ári sem er umtalsvert minni samdráttur en Seðlabankinn spáði en hann gerði ráð fyrir 7,7% samdrætti. Þessi spáskekkja skýrist einna helst af því að fjárfesting í hagkerfinu, og þá fyrst og fremst atvinnuvegafjárfesting, dróst minna saman en Seðlabankinn vænti.
Spáskekkjan skýrist einnig af minni samdrætti í einkaneyslu. Hvort tveggja er vísbending um meiri eftirspurn en reiknað var með. Eins er útlit fyrir að hluti boðaðra fjárfestinga hins opinbera á síðasta ári hafi ekki gengið eftir og muni flytjast yfir á yfirstandandi ár.“
Því sé ef til vill þörf á meira peningalegu aðhaldi í ljósi þess að verðbólgan sé fyrir ofan efri vikmörk verðbólgumarkmiðsins.
„Að fjárfestingin hafi verið að dragast minna saman en Seðlabankinn vænti er þó ávísun á meiri framleiðslugetu og þar með meiri framleiðsluslaka sem styður markmið peningastefnunnar.
Samantekið teljum við líklegast að peningastefnunefndin vilji doka við þar til skýrari mynd fæst á framgang bólusetninga á næstu mánuðum og ákveði því að halda stýrivöxtum óbreyttum í mars.“