Segir Orra fara með rangt mál

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir lýsingar Orra Haukssonar ekki …
Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir lýsingar Orra Haukssonar ekki ríma við veruleikann. mbl.is/Ómar Óskarsson

Í viðtali sem birtist við Orra Hauksson, forstjóra Símans, nú í morgun og gefið er út í tengslum við Iðnþing 2021, gagnrýnir hann Samkeppniseftirlitið harkalega og segir það hafa komið í veg fyrir mögulegt samstarf um uppbyggingu fjarskiptainnviða í kjölfar fárviðris sem gekk yfir landið í desember 2019. Í fyrstu hafi stofnunin lýst jákvæðu viðhorfi í garð mögulegs samstarfs en svo hafi „upp úr þurru“ borist bréf þar sem varað hafi verið við því að mögulegt samstarf gæti kallað refsiábyrgð yfir þá sem tækju þátt í viðræðum um slíkt.

Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins, segir Orra fara með rangt mál og að áformin um samstarf fyrirtækjanna hafi ekki einskorðast við uppbyggingu í kjölfar skakkafalla af völdum veðursins.

„Tildrög þessara samstarfsáforma voru þau að Síminn, Sýn og Nova birtu tilkynningu á Kauphöllinni þann 19. desember 2019, þar sem greint var frá viljayfirlýsingu um mögulegt samstarf við samnýtingu og uppbyggingu fjarskiptainnviða. Sama dag greindi Síminn Samkeppniseftirlitinu nánar frá áformunum og Sýn degi síðar. Átti eftirlitið samskipti við fyrirtækin í framhaldinu. Af lýsingu áformanna varð skýrt ráðið að fyrirhugað samstarf væri víðtækt og voru viðræðurnar ekki bundnar við afleiðingar óveðurs eða landssvæði utan suðvesturhornsins, eins og Orri lætur í veðri vaka.“

Minnisblað í febrúar 2020

Bendir Páll Gunnar á að í tengslum við þessi áform og sömuleiðis skipun starfshóps ríkisstjórnarinnar um fyrirkomulag innviða í raforku- og fjarskiptum, hafi Samkeppniseftirlitið ritað minnisblað sem dagsett er 18. febrúar 2020. Þar sé rakinn gildandi réttur og stefnumörkun á þessu sviði á Evrópska efnahagssvæðinu, OECD og í einstökum löndum á borð við Bretland.

Síminn hafði líkt og fleiri fjarskiptafyrirtæki áhuga á að efna …
Síminn hafði líkt og fleiri fjarskiptafyrirtæki áhuga á að efna til samstarfs um uppbyggingu innviða í kjölfar fárviðris sem gekk yfir landið 2019 og skemmdi þáverandi búnað. mbl.is/Sigurgeir Sigurðsson

Í minnisblaðinu segir m.a.:

„Þegar efni yfirlýsingarinnar frá 19. desember 2019 er virt og horft er til þess sem fram kom á fundunum með fjarskiptafyrirtækjunum er ljóst að efni komandi viðræðna er lítt skilgreint og afar opið. Auk þess að ræða hvers konar samstarf varðandi uppbyggingu fjarskiptainnviða, þá virðist einnig geta fallið undir viðræðurnar framtíðarskipulag fjarskiptamarkaðarins, sbr. framangreindar upplýsingar um að til standi að skoða stofnun eins fyrirtækis sem færi með rekstur allra fjarskiptainnviða hér á landi. Stendur þannig til að ræða t.d. um þann hluta fjarskiptainnviða þar sem samkeppni ríkir og enginn augljós markaðsbrestur er fyrir hendi.“

Í kjölfarið rekur stofnunin að svo víðtækt samstarf milli fyrirtækjanna gæti stefnt í hættu því markmiði samkeppni á þessu sviði að skapa aðstæður fyrir fjárfestingu og hraða uppbyggingu grundvallarinnviða á borð við 5G-kerfið.

Eftirlitið ekki upplýst um lok viðræðna

Að lokum er áréttað í minnisblaðinu að afmarkaðar viðræður keppinauta sem byggja á markmiðum 15. gr. samkeppnislaga og ætlað er að stuðla að hagkvæmni, öryggi, umhverfisvernd eða bættum hag neytenda geti að öllu jöfnu ekki skapað samkeppnisleg vandamál.

„Í framhaldinu áttu fjarskiptafyrirtækin í samskiptum við eftirlitið um afmarkaðra samstarf sem fallið gæti að þeim heimildum sem samkeppnislög veita keppinautum til samstarfs. Gerði Samkeppniseftirlitið ekki athugasemdir við slíkar viðræður. Eftirlitinu hefur ekki verið greint frá því að þær viðræður hafi runnið út í sandinn, eins og Orri gefur í skyn. Með hliðsjón af öllu þessu rímar frásögn Orra ekki alveg við staðreyndir málsins,“ segir Páll Gunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK