Icelandair hyggst bæta við sig tveimur áfangastöðum í sumar og fljúga til alls 34 áfangastaða í Evrópu og Norður-Ameríku. Einu sinni í viku verður flogið til Barcelona á Spáni og Portland í Oregon-ríki í Bandaríkjunum.
Þá verður einnig flogið til allra sömu áfangastaða og áður auk þess sem morgunflug til Boston þrisvar í viku bætist við daglegt síðdegisflug. Þá verður byrjað að fljúga til Orlando fyrr en áætlað var, þ.e. í júlí í stað september.
Þetta segir Ásdís Ýr Pétursdóttir, upplýsingafulltrúi Icelandair, í samtali við mbl.is.
Í mars voru 20 flugmenn endurráðnir og í byrjun apríl verða 28 til viðbótar endurráðnir. Þá fara flugfreyjur og flugþjónar, sem hafa verið í hlutastarfi, í fyrra starfshlutfall frá og með 1. maí.
Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvort ráðið verður í fleiri stöðugildi en unnið er að því að uppfæra sumaráætlun.
Áfangastaðirnir í Evrópu eru: Ósló, Barcelona, Bergen, Kaupmannahöfn, Billund, Stokkhólmur, Helsinki, Amsterdam, París, Berlín, Hamborg, Frankfurt, München, Genf, Zürich, Brussel, London, Glasgow, Manchester, Dublin, Madrid, Mílanó og Tenerife.
Áfangastaðirnir í Norður-Ameríku eru: Boston, New York, Seattle, Minneapolis, Washington, Denver, Chicago, Toronto, Vancouver, Montreal og Portland.
Þá mun flugfélagið fljúga reglulega til Alicante í leiguflugi.
Fréttin hefur verið uppfærð.