Kaffitár ætlar að loka kaffihúsinu sem rekið hefur verið í Bankastræti, tímabundið í það minnsta. Þá hefur kaffihúsinu í Þjóðminjasafninu verið endanlega lokað.
Sólrún Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri sölu- og markaðsdeildar Kaffitárs, segist vona til þess að reksturinn í Bankastræti hefjist aftur sem fyrst. Kaffihúsið verður opið út marsmánuð.
Tímabilið síðan faraldurinn hófst hafi verið erfiður rekstraraðilum, sérstaklega í miðbænum sem áður var fullur af ferðamönnum.
Kaffihúsinu í Þjóðminjasafninu var hins vegar endanlega lokað mánaðamótin janúar og febrúar og mun það ekki opna að nýju.
Sólrún segir það ekki á döfinni að loka fleiri kaffihúsum en Kaffitár rekur nú sex staði sem verða fimm 1. apríl. Þeir eru staðsettir í Háskólanum í Reykjavík, Höfðatorgi, Kringlunni, Stórhöfða, Nýbýlavegi og Bankastræti.