Stjórn Alvogen lét skoða starfshætti Róberts

Róbert Wessman, forstjóri og einn eigandi lyfjafyrirtækisins Alvogen.
Róbert Wessman, forstjóri og einn eigandi lyfjafyrirtækisins Alvogen. Ljósmynd/Sigurjón Ragnar

Stjórn lyfjafyrirtækisins Alvogen setti á fót óháða nefnd til að rannsaka kvartanir og athugasemdir sem starfsmaður fyrirtækisins gerði við starfshætti Róberts Wessman, forstjóra og eins eiganda Alvogen.

Starfsmaðurinn gerði að auki fjárkröfu á Róbert að því er fram kemur í yfirlýsingu frá Alvogen. Róbert sagði sig frá stjórnarstörfum á meðan málið var til skoðunar.

Kvartað undan forstjóranum

Stjórn Alvogen barst bréf frá starfsmanninum hinn 20. janúar á þessu ári þar sem kvartað var undan forstjóranum. Nefndin sem fór með málið fyrir hönd stjórnarinnar fékk alþjóðlegu lögfræðistofuna White & Case LLP til að fara yfir kvartanirnar sem settar voru fram í bréfinu.

Þá réð stjórnin Lex lögmannsstofu til að vera ráðgefandi um þau álitaefni sem snúa að íslenskum lögum og íslenskri vinnulöggjöf.

„Í athugun White & Case LLP á kvörtunum starfsmannsins fólst meðal annars að rýna fjölda gagna í málinu en að auki ræddi lögfræðistofan við starfsmanninn sem bar fram kvörtunina og tugi fyrrverandi og núverandi starfsmanna Alvogen. Allir starfsmenn sem rætt var við báru Róberti vel söguna. Þá bentu engin gögn til þess að eitthvað væri athugavert við stjórnunarhætti Róberts,“ segir í yfirlýsingunni.

Ekkert sem styður efni bréfsins

Málið var til skoðunar í um átta vikur en niðurstaða White & Case barst stjórn Alvogen 9. mars.

„Niðurstaðan er skýr og ljóst að efni kvartananna á sér enga stoð. Ekkert bendir til þess að starfshættir Róberts Wessman séu þess eðlis sem greint er frá í bréfinu og engin ástæða er til að aðhafast neitt vegna þessa máls. Stjórn Alvogen ber fullt traust til Róberts og hans stjórnunarhátta,“ segir jafnframt í yfirlýsingunni.

Þar kemur fram að stjórnin telji mikilvægt að upplýsa um málið og iðka þannig fullt gagnsæi af hálfu fyrirtækisins og framfylgja þeirri stefnu sem fyrirtækið hefur sett sér um að tryggja öruggt og heilbrigt starfsumhverfi.

Talsmaður Alvogen vildi ekki tjá sig um málið við mbl.is umfram það sem fram kemur í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK