Frá og með 1. apríl mun afgreiðslutími pósthúsa á höfuðborgarsvæðinu, Akureyri, Reykjanesbæ og Vestmannaeyjum breytast. Þannig verður opnað fyrr alla virka daga eða klukkan 9:30 í stað 10:00 og opið fjóra daga vikunnar, mánudag til fimmtudags frá 9:30 til 17:00 en á föstudögum til 16:00.
Fram kemur í tilkynningu frá Póstinum að fyrirtækið hafi bætt við fjölda afhendingarstaða á síðasta ári sem henta vel þeim sem komist ekki á þjónustutíma pósthúsa. Þá sé heimkeyrsla til einstaklinga í boði alla virka daga eftir klukkan 17 á viðkomandi stöðum. Pósturinn vilji hvetja alla viðskiptavini til að kynna sér nýja afhendingarstaði á Mínum síðum eða í appinu.
Þá segir að frá og með 15. apríl muni Pósturinn hefja samdægursþjónustu í póstbox á höfuðborgarsvæðinu. Allar póstboxasendingar sem séu póstlagðar á höfuðborgarsvæðinu í gegnum fyrirtækjaþjónustu Póstsins verði því afhentar samdægurs í því póstboxi sem viðskiptavinur valdi við kaup í netverslun.
Fram kemur að þá geti viðskiptavinir einnig valið um að fá allar sendingar afhentar í póstbox að eigin vali á nýjum Mínum síðum á vefsíðu Póstsins og í nýju appi fyrirtækisins sem ber nafnið Pósturinn.
„Þessi nýja viðbót við þjónustuframboð Póstsins hækkar þjónustustig umtalsvert á höfuðborgarsvæðinu en hún gerir viðskiptavinum fært að nálgast sendingar einum degi fyrr en þeir hafa getað gert hingað til,“ segir jafnframt.