Hugbúnaðarfyrirtækið GRID hleypti lausn sinni formlega af stokkunum í gær og samhliða hófst sala á búnaðinum. Um tíu þúsund manns hafa notað hugbúnaðinn frá því prófanir hófust fyrir um ári og nærri eitt þúsund manns eru orðnir reglulegir notendur. Hjálmar Gíslason, stofnandi og framkvæmdastjóri, fagnaði áfanganum með samstarfsfólki sínu í gær og segir í samtali við ViðskiptaMoggann að nú taki við frekari útbreiðsla og markaðssetning lausnarinnar. Hann segir aðspurður að stefnt sé að veltu sem svari til 100 m.kr. árstekna fyrir lok árs og stefnt sé að því að byggja upp félag sem hafi yfir 100 m. Bandaríkjadala í árstekjur innan 7 ára. 25 starfa hjá GRID. Lausnin gerir fólki kleift að deila gögnum úr töflureiknum út á netið. Tvö og hálft ár er frá stofnun félagsins sem hefur samtals safnað tveimur milljörðum króna í hlutafé. Hjálmar segir að félagið eigi stóran hluta af fénu inni á reikningi sem setji það í öfundsverða stöðu.