Íslenska hugbúnaðarfyrirtækið Crankwheel hefur gert samstarfssamning við tæknifyrirtækin Web.com (Newfold Digital) og Ringover um notkun á lausnum Crankwheel.
Web.com er bandarískt fyrirtæki með höfuðstöðvar sínar í Flórída og með meira en þrjár milljónir viðskiptavina á heimsvísu. Félagið sérhæfir sig í vefsíðuhönnun og sölu léna en þar starfa rösklega 4.000 manns og er veltan yfir milljarður dala árlega.
Ringover er aftur á móti franskt fyrirtæki með höfuðstöðvar í París sem býður smáum og meðalstórum fyrirtækjum upp á símalausn í skýinu og hugbúnað fyrir stjórnun viðskiptatengsla. Viðskiptavinir Ringover eru rösklega 10.000 talsins.
Í tilviki Web.com verður hugbúnaður Crankweel hluti af nýrri þjónustu fyrir fagfólk sem vill koma upp sinni eigin vefsíðu á netinu og tengjast þar viðskiptavinum. Með lausn Crankwheel geta notendur Web.com deilt með væntanlegum viðskiptavinum upplýsingum af eigin skjá og þannig kynnt betur vörur sínar og þjónustu.
Í tilviki Ringover bætist hugbúnaður Crankwheel við verkfærakistu söluteyma svo þau geti auðveldar sýnt tilvonandi viðskiptavinum vöruupplýsingar.
Crankwheel er rösklega fimm ára gamalt sprotafyrirtæki en er nú þegar með greiðandi viðskiptavini í 59 löndum og sex heimsálfum. Koma 99,9% af tekjum félagsins frá útlöndum.
Stofnandi og framkvæmdastjóri Crankwheel er Jóhann „Jói“ Tómas Sigurðsson.
Greinin birtist upphaflega í Morgunblaðinu 22. mars.