Ákveðið hefur verið að Lindex opni nýja verslun á Selfossi í húsnæði sem í dag hýsir sérverslun Hagkaups. Verslunin verður sú stærsta sem Lindex hefur opnað hér á landi utan höfuðborgarsvæðisins, en verslunin mun opna 7. ágúst.
Boðið verður upp á alla vörulínu Lindex; dömu- og undirfatnað og barnafatnað ásamt snyrtivörum og fylgihlutum.
„Við höfum leitað lausna í nokkur ár til að fylgja eftir opnunum á Akranesi, Suðurnesjum og síðast á Egilsstöðum með verslun í okkar heimabæ, á Selfossi þar sem þetta allt saman byrjaði. Áhuginn hefur ekki látið á sér standa en það er mikið gleðiefni að samningar skuli hafa náðst við Haga um verslunarrýmið við hlið Bónus. Við mátum það svo að við vildum hafa verslunina á Selfossi stærri en áður hafði verið kynnt og bjóða upp á allar vörulínur Lindex,“ segir Lóa D. Kristjánsdóttir, umboðsaðili Lindex á Íslandi, í tilkynningu.
Nýja verslunin á Selfossi verður byggð upp með nýrri innréttingahönnun Lindex sem leit fyrst dagsins ljós við opnun verslunarinnar í London. Hönnunin byggir á björtum litum með ólíkum litbrigðum hvítra lita í bland við svart og viðar sem gefur útliti verslunarinnar skandínavískt yfirbragð.