Húsasmiðjunni tókst að lækka mælda heildarlosun koltvísýringsígilda frá starfseminni um 12 prósent á milli áranna 2019 og 2020 ásamt því að hafa nú kolefnisbundið losun í samstarfi við Kolvið og Votlendissjóð. Þetta hafðist, þökk sé markvissum aðgerðum, segir í tilkynningu frá fyrirtækinu.
Húsasmiðjan hefur birt samfélagsuppgjör fyrir 2020 í samstarfi við Klappir Grænar lausnir hf. sem lið í stefnu Húsasmiðjunnar í að auka markvisst áherslu á umhverfis- og samfélagsmál ásamt því að leita leiða til að lágmarka kolefnisspor starfseminnar.
Allar 16 verslanir, skrifstofa og vöruhús Húsasmiðjunnar, Blómavals og Ískrafts ásamt bíla- og tækjaflota eru hluti af samfélagsuppgjörinu.
Frá árinu 2018 hefur Húsasmiðjan verið í samstarfi við hugbúnaðarfyrirtækið Klappir um mælingar á umhverfisáhrifum starfseminnar. Hugbúnaðurinn gerir Húsasmiðjunni kleift að fylgjast með helstu umhverfisþáttum í rauntíma, þar á meðal rafmagns-, eldsneytis- og heitavatnsnotkun ásamt úrgangsmyndun og kolefnisspori.
Til þess að gera enn betur hefur Húsasmiðjan, fyrst fyrirtækja á Íslandi, gefið stjórnendum í verslunum sínum aðgang að hugbúnaði Klappa þar sem hægt er að fylgjast með umhverfismælingum í rauntíma. Þannig vill Húsasmiðjan gefa starfsfólki tækifæri til að taka virkan þátt í að draga enn frekar úr umhverfisáhrifum starfseminnar.
Með mælingum og markvissum aðgerðum starfsfólks tókst Húsasmiðjunni á síðasta ári að lækka mælda heildarlosun koltvísýringsígilda frá starfseminni um 12 prósent á milli ára. Þá lækkaði heildarlosun miðað við tekjur um heil 18 prósent á sama tímabili.
Jafnframt hefur Húsasmiðjan ákveðið að kolefnisjafna alla losun félagsins í samstarfi við Kolvið og Votlendissjóð.
„Samfélagsuppgjörið styður við markmið Húsasmiðjunnar um að ná mælanlegum árangri í umhverfismálum og sjálfbærni ásamt því að deila þeim árangri með starfsfólki, viðskiptavinum og samfélaginu í heild. Við leggjum mikið upp úr því að vinna þetta faglega í samstarfi við leiðandi aðila á þessu sviði,“ segir Árni Stefánsson, forstjóri Húsasmiðjunnar.
„Það er mjög ánægjulegt að sjá þann árangur sem Húsasmiðjan hefur náð í að lækka kolefnisspor starfseminnar á faglegan hátt. Við erum sérstaklega þakklát fyrir að Húsasmiðjan kjósi að binda kolefnislosun með Votlendissjóðnum og Kolviði hér á Íslandi,“ segir Einar Bárðarson, framkvæmdastjóri Votlendissjóðs.