Húsafellsbændur hafa látið skipuleggja nýja byggð ofan við núverandi sumarhúsabyggð sem rúma mun allt að 75 heilsárshús. Framkvæmdir eru nú þegar hafnar við fyrstu sex húsin á svæðinu og í fyrsta áfanga er stefnt að uppbyggingu á 40 lóðum.
Unnar Bergþórsson, sem vinnur að verkefninu ásamt föður sínum, Bergþóri Kristleifssyni, segir að í núverandi ástandi sé mikil spurn eftir afdrepi utan höfuðborgarsvæðisins þar sem fólk geti verið meira út af fyrir sig.
„Við fundum fyrir mikilli eftirspurn í þessum aðstæðum og þótt hverfið hafi verið í 15 ár í undirbúningi þá teljum við þetta réttan tímapunkt til að koma með þetta á markað. Viðtökurnar láta heldur ekki á sér standa og sex lóðir eru seldar og fleiri fráteknar. Þá er smíði hafin á tveimur húsum til viðbótar.“
Kaupendur geta valið milli þriggja tegunda vistvænna húsa sem eru frá 88 fermetrum og upp í 140 fermetra, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.