Um allan heim hafa fyrirtæki í flestum geirum atvinnulífsins gert vel heppnaðar tilraunir með að stytta vinnuvikuna en halda launum óbreyttum. Sum fækka vinnudögum úr fimm niður í fjóra í viku en önnur stytta daginn um nokkrar klukkustundir.
Heilt á litið virðist stytting vinnuvikunnar hafa ótal kosti í för með sér og hvorki bitna á afköstum starfsfólks né hagnaði fyrirtækja. Starfsánægja eykst til muna, starfsmannavelta minnkar og í mörgum tilvikum hefur útkoman verið stórbættur rekstur.
Í dag kemur út íslensk þýðing á bók Alex Soojung-Kim Pangs um þessa þróun en þar fer hann í saumana á því hvernig fyrirtæki eiga að bera sig að svo að stytting vinnuvikunnar heppnist vel.
Ákvörðunin þarf að koma ofan frá en útfærslan vera í höndum starfsfólksins sjálfs, sem veit best hvar tímaþjófarnir leynast. Ítarlegt viðtal birtist við Pang á miðopnu ViðskiptaMoggans í dag.
Bókin er gefin út af Eddu útgáfu. Þýðandi bókarinnar er Sara Lind Guðbergsdóttir lögfræðingur en hún hefur m.a. setið í samninganefnd ríkisins fyrir hönd fjármála- og efnahagsráðherra og komið að samningu ákvæða um styttingu vinnuvikunnar á opinbera markaðnum.
Hún segir að hugmyndin að því að þýða bókina hafi kviknað í þeirri vinnu.
„Það hljómar sem einfalt verkefni að stytta vinnuvikuna og einhverjir kunna að halda að það sé í raun gert með einu pennastriki. Það er hins vegar ekki svo einfalt mál og ef rangt er staðið að styttingunni getur það bæði komið niður á framlegð fyrirtækja og stofnana en einnig heilsu og ánægju starfsfólks.“
Sara segir að á meðan verið var að ræða styttingu vinnuvikunnar í kjarasamningagerðinni hér á landi hafi hún rekist á bók Pangs og heillast af nálgun hans á viðfangsefnið. Í bókinni sé auk þess fjallað um fjölda stofnana og fyrirtækja sem staðið hafi frammi fyrir þeirri áskorun að stytta vinnuvikuna.
„Flest dæmin eru af fyrirtækjum sem tóku þetta upp að eigin frumkvæði en ekki á grundvelli opinberra tilskipana. Þau sjá flest mikið tækifæri í þessu og það er sannarlega til staðar hér á landi einnig. En til þess að það gerist verður að innleiða styttinguna með réttum hætti og Pang útskýrir skilmerkilega aðferðafræðina sem virkar.“