Hröð stækkun rafbílaflota landsins felur í sér ýmsar áskoranir og þá ekki síst fyrir rafbílaeigendur í fjölbýlishúsum. Oft eru heimtaugar að þeim húsum ekki nógu afkastamiklar, auk þess sem þeim sem ekki eiga rafbíla í húsinu þykir kannski súrt í broti að greiða rafmagnsreikninginn fyrir þá sem þá eiga. Þetta vandamál hafa sumir eigendur rafbíla leyst með því að setja rafmagnssnúru út um eldhúsgluggann með leyfi húsfélagsins, sem augljóslega er ekki framtíðarlausn.
Lög um fjöleignarhús breyttust í maí á síðasta ári en með þeim er húsfélögum í fjölbýlishúsum skylt að bregðast við óskum íbúa um að koma upp rafhleðslustöðvum. Þá vakna spurningar um næstu skref og réttláta skiptingu kostnaðar milli húsfélaga og einstakra notenda. „Húsfélög eru eins misjöfn og þau eru mörg. Þó að sumir vilji kannski enga ráðgjöf í þessum efnum, þá eru örugglega hundruð húsfélaga sem þurfa virka ráðgjöf,“ segir verkfræðingurinn Bjarni Gnýr Hjarðar, ráðgjafi hjá Eignaumsjón, en fyrirtækið sér um rekstur um 700 hús- og rekstrarfélaga með hátt í 15.000 íbúðum/eignarhlutum.
Bjarni segir aðspurður að í mörg horn hafi verið að líta síðan hann hóf störf hjá Eignaumsjón sl. haust. „Ef einn íbúðareigandi fer fram á að skoðað verði með hleðslu rafbíla verður stjórn húsfélagsins að bregðast við samkvæmt nýju lögunum. Þá þarf að láta gera úttekt og framkvæmdaáætlun og ákveða í framhaldinu til hvaða aðgerða þurfi að grípa,“ útskýrir Bjarni og segir að hugsanlega megi þó fresta framkvæmdum í allt að tvö ár.
Lestu meira um málið í Morgunblaðinu í dag.