Halldór Hreinsson, eigandi Fjallakofans, segir að vikan nú fyrir páska hafi verið betri en vikan fyrir jól. Í Fjallakofanum fæst allt til útivistar, allt frá höfuðljósum til mannbrodda og útivistarfatnaðar. Lesendur Morgunblaðsins geta því auðveldlega gert sér í hugarlund hversu mikið hefur verið að gera í Fjallakofanum að undanförnu, enda hafa um 30 þúsund Íslendingar farið að gosstöðvunum í Geldingadölum á þeim tveimur vikum síðan byrjaði að gjósa.
„Gos í bakgarðinum er mikill hvalreki, það er alveg klárt. Þessi vika fyrir páska var stærri en jólin, það er að segja stærri en síðustu dagar fyrir jól. Síðasti þriðjudagur var sá stærsti frá upphafi,“ segir Halldór við Morgunblaðið.
„Fólkið flæðir eins og hraunið hingað inn,“ bætir hann við.
Halldór segist vera í góðum samskiptum við birgja erlendis og því hafi tekist ágætlega að halda lagernum frá því að tæmast. Hins vegar kláruðust höfuðljós síðasta þriðjudag, en sending á miðvikudaginn breytti því þó til hins betra.
Það sem selst hvað mest, að sögn Halldórs, eru einmitt höfuðljósin og skóbúnaður. Bæði þá gönguskór og mannbroddar og keðjur undir þá.
Opið er í Fjallakofanum í dag, laugardag, og Halldór er bjartsýnn að ná að anna eftirspurn eftir páska. Halldór segir einnig að starfsfólk Fjallakofans hafi átt fullt í fangi með að sinna öllum viðskiptavinum og gæta þess að sóttvarnareglum sé fylgt á sama tíma, svo mikil er eftirspurnin.