Nokkur hægagangur hefur verið í söluferli Iceland Travel að undanförnu að sögn kunnugra. Er þar fyrst og síðast um að kenna frídögum í kringum páskahátíðina en áður en hún gekk í garð opnaði Íslandsbanki, umsjónaraðili ferlisins, gagnaherbergi sem mögulegir kaupendur hafa getað skyggnst inn í. Það var í janúar síðastliðnum sem tilkynnt var að flugfélagið hygðist losa um þennan þátt í rekstri sínum en ákvörðunin er hluti af stærri stefnumörkun sem miðar að því að leggja alla áherslu á flugrekstur í stað margs konar ferðaþjónustu eins og verið hefur síðustu ár.
Í fyrri hluta söluferlisins voru margir um hituna en verulega fækkaði í hópi vonbiðla þegar m.a. var búið að þreifa á mögulegu kaupverði. Eftir stóðu fjórir aðilar sem allir hafa ríkra hagsmuna að gæta í íslenskri ferðaþjónustu.
Þannig herma heimildir ViðskiptaMoggans að Kynnisferðir séu meðal bjóðenda. Þar situr m.a. í stjórn Steinn Logi Björnsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Icelandair og forstjóri og eigandi Bláfugls. Þá herma heimildir blaðsins að Hörður Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Iceland Travel, sé Kynnisferðum til ráðgjafar um möguleg kaup á fyrirtækinu.
Þá mun ferðaskrifstofan Nordic Visitor einnig vera í hópi bjóðenda. Árið 2019 keypti NV ferðaskrifstofuna Terra Nova Sól hf. af Arion banka.
Þriðji hópurinn sem kemur að ferlinu er Keahótel ehf. Heimildir ViðskiptaMoggans herma að ferðaþjónustufyrirtækið Arctic Adventures sé á hliðarlínunni og að aðkoma fyrirtækisins að kaupum Keahótela sé ekki útilokuð. Landsbankinn hefur ríka aðkomu að hótelfyrirtækinu og þá eru rík eignatengsl milli Arctic Adventures og ITF, framtakssjóðs sem er í stýringu Landsbréfa, eignastýringararms Landsbankans.
Fjórði hópurinn sem býður í fyrirtækið mun vera undir hatti Landsbréfa og eru þar á ferðinni Hópbílar og bílaleigan Hertz sem fjárfestingarsjóðurinn Horn III, sem er í stýringu hjá Landsbréfum, á 100% hlut í.