Nýskráningar bifreiða í marsmánuði sl. voru 7,8% færri en á sama tíma á síðasta ári. 1.075 bílar voru skráðir í mánuðinum samanborið við 1.166 í mars í fyrra. Þetta kemur fram í tölum Bílgreinasambandsins. Á sama tímabili jókst sala léttra atvinnubíla um 27,7% milli ára. Samdrátturinn liggur því allur í sölu fólksbíla, eða 11%. 278 hreinir rafbílar voru skráðir í mars og var hlutdeild þeirra af heildarsölu 25,9%.
Þegar horft er til tengiltvinnbíla voru 215 slíkir skráðir í mars eða 20% af heildarfjölda nýskráðra bíla. Hreinir rafbílar og tengiltvinnbílar voru 45,9% af heildarnýskráningum í mánuðinum.
Egill Jóhannsson, forstjóri Brimborgar og stjórnarmaður í Bílgreinasambandinu, segir í samtali við ViðskiptaMoggann að samanlögð sala hreinna rafbíla og tengiltvinnbíla hafi verið um 45-50% af heildarbílasölunni síðustu mánuði. „Ég yrði ekki hissa ef þessir flokkar yrðu komnir í 65-75% hlutfall í lok ársins. Eitt af því sem drífur söluna áfram er að úrval þessara bíla hefur aukist mikið,“ segir Egill. Þessu til stuðnings segir hann að í mars hafi 18 bílamerki skráð eitthvað af hreinum rafbílum samanborið við 12 fyrir ári.
Þegar borin er saman sala milli febrúar og mars á þessu ári verður mikil aukning í sölu, eða 72,5%. „Árið byrjaði ekkert frábærlega, en það færðist meira líf í söluna í mars. Ég hef trú á því að þegar faraldurinn hopar og bólusettum fjölgar samhliða sterkari krónu, þá eigi bílamarkaðurinn eftir að taka hressilega við sér.“