Halldór Kristmannsson, fyrrverandi samskiptastjóri Alvogen og einn nánasti samstarfsmaður Róberts Wessman um langt skeið, stofnanda fyrirtækisins, upplýsti um það í viðtölum við lögmannsstofuna White & Case, sem var falið að framkvæma athugun á ásökunum hans á hendur Róberti, að hafa fundað með Björgólfi Thor Björgólfssyni, fjárfesti og aðaleiganda Novator, í nóvember 2020. Þetta kemur fram í frétt Markaðarins, fylgiblaðs Fréttablaðsins í dag.
„Fordæmalaus harka í minn garð, sem uppljóstrara, er beinlínis með ólíkindum. Sama dag og nafni mínu er lekið í fjölmiðla og tilkynnt um „hvítþvottinn“, þá er setið fyrir mér fyrir utan World Class í Smáralind, með uppsagnarbréf og stefnu,“ segir Halldór Kristmannsson í tilkynningu sem hann sendi til fjölmiðla í gærmorgun.
Í stefnu Alvogen á hendur Halldóri, sem var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær og Markaðurinn hefur undir höndum, er fullyrt að samkvæmt lýsingum Halldórs sjálfs hafi tilgangur hans með fundinum verið að „afla upplýsinga í því skyni að reyna að koma sér í aðstöðu sem gæti nýst honum til að gera kröfur á hendur félaginu um fjárhagslegt uppgjör sér til handa“.
Alvogen segir í stefnunni að félagið telji „slík samskipti mjög alvarlegt trúnaðarbrot. Þessi samskipti eru í ljósi ráðningarsamnings og trúnaðarskyldu [Halldórs] með öllu óeðlileg. Þessar upplýsingar komu [Alvogen] í opna skjöldu.“