Tvg-Xpress afhenti í fyrra um 174 þúsund sendingar, eða um 100 þúsund fleiri en árið 2019. Var aukningin að langstærstu leyti tilkomin vegna innlendrar netverslunar.
Fyrirtækið var stofnað árið 2016 í kringum þjónustu við Skynet sem sér meðal annars um flutninga fyrir netrisann Asos og JD Sport.
Hannes Alfreð Hannesson, forstöðumaður TVG-Xpress, segir félagið reikna með að eftirspurnin aukist með fleiri sjálfsafgreiðslustöðvum. Íslendingar séu byrjaðir að læra á þægindi netverslunar.
„Við stefnum á að vera komin með yfir 20 eigin afhendingarstaði á höfuðborgarsvæðinu í ár. Við viljum vera í hverju hverfi, sem næst viðskiptavininum. Samkeppnin er hörð og fjölmargir bjóða slíka þjónustu. Markmið okkar er að viðskiptavinurinn upplifi sem besta þjónustu.“
Innlend vefverslun var sem áður segir að baki stærstum hluta aukningarinnar hjá TVG-Xpress í fyrra. Meðal innlendra viðskiptavina hafa verið Krónan, Elko, Nespresso, Byko, Bauhaus, Norr11, Lyfja, Heilsuhúsið og fjölmargar aðrar verslanir. Þá hefur TVG-Xpress gert samninga við aðra erlenda flutningsaðila um dreifingu á vörum á Íslandi, til dæmis fyrir Puma, Shimano og ShopUSA.
Hannes Alfreð segir sendingum hafa fjölgað um 550% í nóvember í fyrra frá sama mánuði árið 2019.
Lestu ítarlegt viðtal við Hannes í ViðskiptaMogganum í dag.