Fjármálaeftirlit Seðlabankans hefur óskað eftir því að 13 lífeyrissjóðir taki samþykktir sínar til endurskoðunar á næsta aðalfundi og skýri hvort, hvernig og við hvaða aðstæður sjóðurinn afturkallar umboð stjórnarmanna sinna í skráðum félögum.
Fjármálaeftirlitið hefur haft sjálfstæði stjórnarmanna lífeyrissjóða til skoðunar um nokkurn tíma en í september 2020 óskaði eftirlitið eftir upplýsingum frá öllum lífeyrissjóðum um hvernig að þessu væri staðið. Skoðunin hófst í kjölfar útboðs sem Icelandair réðst í síðsumars, en stéttarfélagið VR, sem skipar helming stjórnarmanna í Lífeyrissjóð verzlunarmanna, hafði þá sent frá sér yfirlýsingu þar sem mælst var til þess að sjóðurinn sniðgengi hlutafjárútboðið. Það hafði VR gert vegna ákvörðunar Icelandair um að segja upp öllum flugfreyjum sínum til að stilla þeim upp við vegg í kjaraviðræðum.
Niðurstaða Fjármálaeftirlitsins var að skortur væri á skýrleika í samþykktum 13 lífeyrissjóða um hvort mögulegt væri að afturkalla umboð stjórnarmanna og hvernig staðið skyldi að slíkri afturköllun. Af þeim sökum taldi Fjármálaeftirlitið ekki fyllilega tryggt að starfsemi þeirra gæti talist eðlileg, heilbrigð og traust í samræmi við lög.
Eru sjóðirnir því, sem fyrr segir, beðnir um að endurskoða samþykktir sínar en í framhaldinu mun Fjármálaeftirlitið taka breyttar samþykktir þeirra til skoðunar.