BPO Innheimta hefur keypt allt kröfusafn smálánafyrirtækjanna Kredia, Hraðpeninga, Smálána, 1909 og Múla.
BPO Innheimta býður því, til 15. maí, öllum skuldurum að greiða upp lán sín með niðurfellingu, án dráttarvaxta og innheimtukostnaður. Óháð því hversu gamlar skuldirnar eru.
Frá þessu greinir fyrirtækið í tilkynningu.
„Með þessum kaupum BPO á kröfusafninu hafa allir vextir og lántökukostnaður aðrir en hefðbundnir dráttarvextir verið felldir niður og hefur því óvissu um lögmæti verið eytt,“ segir í tilkynningunni.
Jafnframt segir í tilkynningunni að eftir 15. maí verði kröfurnar innheimtar með dráttarvöxtum frá þeim degi sem lánið var tekið.
Til að greiða upp lánin með niðurfellingu verði hægt að hafa samband við þjónustuver fyrirtækisins.
„BPO Innheimta býður einnig þeim sem eiga ógreidd lán hjá gömlu smálánafyrirtækjunum í lánasafni BPO Innheimtu og eiga einnig kröfu á þau vegna ofgreiddra vaxta eða annars lántökukostnaðar, að BPO Innheimta kaupi endurgreiðslurétt skuldara gagnvart smálánafyrirtækinu og lækki útistandandi lán í kröfusafninu til samræmis við þann kostnað sem sannarlega var ofgreiddur,“ segir í tilkynningunni.