Fjárfestingafélagið Fiskisund og lífeyrissjóðurinn Birta eru í hópi þriggja stærstu hluthafa Play í kjölfar hlutafjárútboðs hins verðandi flugfélags, hvort um sig með nærri 15 prósenta eignarhlut. Þetta kemur fram í Markaðnum í dag.
Fiskisund, sem Einar Örn Ólafsson fjárfestir fer fyrir, og Birta fjárfestu bæði fyrir tæplega einn milljarð króna. Aðrir helstu hluthafar Play eru meðal annars fjárfestingafélagið Stoðir, sem skráði sig fyrir yfir 600 milljónum í útboðinu og eignast við það um 9 prósenta hlut, tryggingafélagið VÍS og sjóðir í stýringu Akta.
Eignarhaldsfélagið FEA, sem Skúli Skúlason stýrir og varð eigandi alls hlutafjár í Play fyrir um ári, er enn stærsti einstaki hluthafi Play og heldur á meira en fimmtungshlut eftir hlutafjárútboðið. Samkvæmt heimildum Markaðarins stendur hins vegar til að slíta FEA, sem hefur staðið undir fjármögnun á rekstri Play undanfarna mánuði og misseri, þegar flugfélagið verður skráð á First North-markaðinn í Kauphöllinni í júní en þá er áformað að sækja um 20 milljónir dala í nýtt fjármagn til viðbótar við það sem félagið hefur þegar tryggt sér segir enn fremur í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins í dag.
Í Morgunblaðinu í gær kom fram að Play vinni að því hörðum höndum að hefja áætlunarflug milli Íslands og vinsælla áfangastaða meðal íslenskra ferðaunnenda í júní næstkomandi. Þetta herma heimildir Morgunblaðsins innan úr félaginu. Í fréttinni kemur fram að meðal þeirra sem keyptu í útboðinu séu Stoðir, eigendur Langasjós og fjárfestingarfélagið Brimgarða, félag Einars Arnar Ólafssonar, fyrrum forstjóra Skeljungs, sem nefnist Fiskisund ásamt a.m.k. þremur lífeyrissjóðum.
Heimildir Morgunblaðsins herma að ekki liggi endanlega fyrir hversu miklum fjármunum hlutafjárútboðið skilaði en þeir nema að minnsta kosti 5,5 milljörðum króna.