Heldur er að hægja á aukningu í heildarútlánum til heimilanna, þ.e. heildarvirði útlána heimilanna sem eru með veð í fasteign. Það hefur verið töluverður vöxtur í heildarútlánum heimilanna frá því um mitt ár í fyrra, samhliða aukinni útlánaaukningu, en nú virðist vöxturinn vera að hægja á sér. Heildarútlánin til heimilanna í janúar námu rétt tæplega 2.000 milljörðum króna en hækkuðu milli mánaða um tæplega 19 milljarða. Þetta kemur fram í mánaðarskýrslu Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar.
Lánamarkaður hefur verið líflegur seinasta árið en farið er að hægjast töluvert á umsvifunum. Svo virðist sem fasteigna- og lánamarkaður hafi náð ákveðnu hámarki í september/október og hafi verið á hægri niðurleið síðan þá.
„Hins vegar, ef tekið er tillit til árstíma, hefur hver mánuður síðan þá verið umsvifameiri en sömu mánuðir önnur ár. Ástæðuna fyrir minnkandi umsvifum má rekja til ýmissa þátta eins og til samdráttar í framboði eigna til sölu en eftirspurn eftir eignum virðist vera mun meiri en framboðið. Vaxtastig hefur haldist nokkuð stöðugt undanfarna mánuði og því eru færri að endurfjármagna lán sín um þessar mundir, en fjölmargir hafa nú þegar gert það.
Að auki er líklegt að stór hluti þeirra sem hafa viljann og getuna til að kaupa sér fasteign hafi nú þegar gert það í ljósi fjölda kaupsamninga á seinasta ári og fækkunar á þeim undanfarið.
Hins vegar getur eðlileg árstíðasveifla átt nokkurn þátt í því. Þessi minnkandi umsvif sjást nokkuð greinilega í hreinum nýjum útlánum, þ.e. útlánum að frádregnum uppgreiðslum, meðal fjármálastofnana.
Bankarnir hafa verið að bjóða bestu lánakjörin og hafa þess vegna verið leiðandi í útlánaaukningunni síðastliðið ár. Töluvert hefur dregið úr nýjum lánveitingum og ekki hefur jafn lítið verið lánað út meðal bankanna síðan í maí á síðasta ári. Þó er rétt að taka fram að maí 2020 var á sínum tíma metmánuður í útlánum hjá bönkunum og því er samanburðurinn við seinustu mánuði orðinn nokkuð villandi.
Sögulega má því segja að febrúarmánuður hafi verið mjög umsvifamikill í útlánum meðal bankanna, en sé litið til seinustu mánaða þá hafa þau dregist verulega saman. Útlánin náðu hámarki í október í tæpum 46 milljörðum, en hafa síðan þá dregist saman um næstum helming.
Í febrúar voru hrein ný útlán ekki nema 23 milljarðar. Það er lækkun um 7 milljarða á milli mánaða en í janúar voru ný útlán bankanna um 30 milljarðar. Þróun útlána meðal lífeyrissjóðanna hefur aftur á móti ekki verið með sama hætti og hjá bönkunum.
Umsvif lífeyrissjóða á lánamarkaði hafa dregist verulega saman frá því vextir tóku að lækka mikið seinasta vor. Eftir að hafa verið í miklum vexti frá árinu 2015 hófust stórfelldar uppgreiðslur hjá lífeyrissjóðunum á seinasta ári og ekkert lát verið á þeim síðan. Frá því í júní í fyrra hafa uppgreiðslurnar, umfram ný lán, numið tæplega 46 milljörðum og þegar mest var í nóvember þá voru hrein ný útlán neikvæð um rúmlega 9 milljarða,“ segir í skýrslu HMS.
Samhliða þessari miklu útlánaaukningu hefur hlutfall óverðtryggðra lána verið í miklum vexti síðastliðið ár. Aukninguna má rekja til þess að vaxtakjör af óverðtryggðum lánum hafa aldrei verið betri og því hafa landsmenn í stórum stíl fært sig úr verðtryggðum lánum í óverðtryggð.
Vöxturinn á seinasta ári var í methæðum en farið er að hægjast aðeins á honum samhliða minni lántöku.