Seðlabankinn hóf í september síðastliðnum athugun á stjórnarháttum Lífeyrissjóðs verslunarmanna (LIVE) vegna álitamála sem upp komu í tengslum við undirbúning ákvörðunar stjórnar sjóðsins um hvort taka skyldi þátt í hlutafjárútboði Icelandair Group sem fram fór í september 2020.
Niðurstaða stjórnarinnar var sú að taka ekki þátt í útboðinu en fyrir það var LIVE einn stærsti hluthafi fyrirtækisins og hafði verið um langt árabil.
Seðlabankinn athugaði m.a. hvort stjórn lífeyrissjóðsins hefði gætt að því með fullnægjandi hætti að meta hæfi einstakra stjórnarmanna við undirbúning og ákvörðun um hvort sjóðurinn tæki þátt í hlutafjárútboðinu. Aflaði bankinn m.a. upplýsinga og gagna um ákvörðunarferli stjórnar sjóðsins vegna útboðsins og átti fundi með stjórnarmönnum sjóðsins þar sem farið var yfir álitaefni tengd því.
Niðurstaða Seðlabankans er sú að stjórn sjóðsins hafi ekki gætt að því að meta hæfi einstakra stjórnarmanna við undirbúning og ákvörðun um hvort sjóðurinn tæki þátt í hlutafjárútboðinu.
Fór Seðlabankinn þess á leið við stjórn LIVE að hún myndi framvegis tryggja fullnægjandi umræðu á stjórnarfundum um hæfi stjórnarmanna þegar tilefni væri til þess og að stjórnarmönnum væri gefinn tryggur kostur á því að koma á framfæri upplýsingum sem vörðuðu hæfi þeirra í tengslum við þau mál sem væru til umræðu hverju sinni.
Seðlabankinn snuprar sjóðinn einnig fyrir að upplýsingagjöf hans í tengslum við athugunina hafi ekki verið fullnægjandi og að hún hafi reynst „misvísandi“ sem aftur hafi tafið afgreiðslu athugunarinnar.
Í lok niðurstöðu Seðlabankans á málinu segir:
„Seðlabankinn mun fylgjast með því að nauðsynlegar úrbætur verði gerðar.“