Sérmerktar líkkistur fyrir gæludýr

Aðstandendur sigurtillögunnar Ölmu jógúrts ásamt fulltrúa Íslandsbanka. Frá vinstri: Edda …
Aðstandendur sigurtillögunnar Ölmu jógúrts ásamt fulltrúa Íslandsbanka. Frá vinstri: Edda Hermannsdóttir, samskiptastjóri Íslandsbanka, Auður Ólafsdóttir, Aníta Þórunn Þráinsdóttir, Gabriele Cibulskaite og Gunnhildur Ólöf Jóhannsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Haframjólkurvörulína og sérmerktar líkkistur fyrir gæludýr eru hugmyndir að viðskiptaáætlunum sem nemendur við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands höfðu sett fram og unnu til verðlauna í Grósku hugmyndahúsi í gær. Fengu sigurteymin annars vegar 200 þúsund krónur og hins vegar 100 þúsund krónur í verðlaun fyrir viðskiptaáætlanirnar.

Vörulína úr höfrum þar sem í boði er ís, ostur, mjólk, rjómi og skyr vann fyrstu verðlaun, en til skoðunar er að þróa verkefnið áfram í kjölfar námskeiðsins. Á bak við verkefnið sem fékk nafnið Alma standa Aníta Þórunn Þráinsdóttir, BS-nemi í tölvunarfræði, og viðskiptafræðinemarnir Auður Ólafsdóttir, Gabriele Cibulskaite og Gunnhildur Ólöf Jóhannsdóttir.

Hugmyndin um sérmerktar líkkistur fyrir gæludýr kom eftir að nemendurnir höfðu tekið eftir að þessa vöru vantaði á markaðinn. Fékk verkefnið nafnið Regnbogabrúin. Megintilgangur fyrirtækisins er að smíða, sérmerkja og selja líkkistur fyrir gæludýr, ketti og smáa hunda. Í kynningu verkefnisins segir að með þessu gætu gæludýraeigendur kvatt gæludýr sín á fallegan hátt. Á bak við verkefnið eru þau Anna S. Garðarsdóttir Blomsterberg, Elín Sif Steinarsdóttir Röver, María Arnarsdóttir, Pétur Þór Sævarsson og Silja Ástudóttir sem öll eru í viðskiptafræði. Segjast þau ætla að skoða hvort verkefnið verði þróað áfram.

Aðstandendur hugmyndarinnar Regnbogabrúin sem varð í öðru sæti. Frá vinstri: …
Aðstandendur hugmyndarinnar Regnbogabrúin sem varð í öðru sæti. Frá vinstri: Pétur Þór Sævarsson, María Arnarsdóttir, Silja Ástudóttir, Anna Sigfríð Garðarsdóttir Blomsterberg og Elín Sif Steinarsdóttir Röver sem fylgdist með athöfninni í gegnum síma. Ljósmynd/Aðsend

Verkefnin eru hluti af námskeiði við viðskiptafræðideildina, en þar er nemendum skipt í 4-5 manna hópa sem vinna viðskiptaáætlun utan um hugmyndir sínar. Námskeiðið var í samvinnu við Vísindagarða Háskólans og Íslandsbanka sem veittu verðlaun fyrir tvær bestu hugmyndirnar.

Alls urðu ellefu viðskiptaáætlanir til í námskeiðinu og það var í höndum sérstakrar dómnefndar að velja bestu viðskiptahugmyndina. Í henni sátu auk Ástu Dísar þau Karl Sólnes Jónsson, viðskiptastjóri fyrirtækja hjá Íslandsbanka, Elísabet Sveinsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri Vísindagarða Háskóla Íslands, og Atli Þór Sigurjónsson, viðskiptastjóri fyrirtækja hjá Íslandsbanka.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK