Haframjólkurvörulína og sérmerktar líkkistur fyrir gæludýr eru hugmyndir að viðskiptaáætlunum sem nemendur við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands höfðu sett fram og unnu til verðlauna í Grósku hugmyndahúsi í gær. Fengu sigurteymin annars vegar 200 þúsund krónur og hins vegar 100 þúsund krónur í verðlaun fyrir viðskiptaáætlanirnar.
Vörulína úr höfrum þar sem í boði er ís, ostur, mjólk, rjómi og skyr vann fyrstu verðlaun, en til skoðunar er að þróa verkefnið áfram í kjölfar námskeiðsins. Á bak við verkefnið sem fékk nafnið Alma standa Aníta Þórunn Þráinsdóttir, BS-nemi í tölvunarfræði, og viðskiptafræðinemarnir Auður Ólafsdóttir, Gabriele Cibulskaite og Gunnhildur Ólöf Jóhannsdóttir.
Hugmyndin um sérmerktar líkkistur fyrir gæludýr kom eftir að nemendurnir höfðu tekið eftir að þessa vöru vantaði á markaðinn. Fékk verkefnið nafnið Regnbogabrúin. Megintilgangur fyrirtækisins er að smíða, sérmerkja og selja líkkistur fyrir gæludýr, ketti og smáa hunda. Í kynningu verkefnisins segir að með þessu gætu gæludýraeigendur kvatt gæludýr sín á fallegan hátt. Á bak við verkefnið eru þau Anna S. Garðarsdóttir Blomsterberg, Elín Sif Steinarsdóttir Röver, María Arnarsdóttir, Pétur Þór Sævarsson og Silja Ástudóttir sem öll eru í viðskiptafræði. Segjast þau ætla að skoða hvort verkefnið verði þróað áfram.
Verkefnin eru hluti af námskeiði við viðskiptafræðideildina, en þar er nemendum skipt í 4-5 manna hópa sem vinna viðskiptaáætlun utan um hugmyndir sínar. Námskeiðið var í samvinnu við Vísindagarða Háskólans og Íslandsbanka sem veittu verðlaun fyrir tvær bestu hugmyndirnar.
Alls urðu ellefu viðskiptaáætlanir til í námskeiðinu og það var í höndum sérstakrar dómnefndar að velja bestu viðskiptahugmyndina. Í henni sátu auk Ástu Dísar þau Karl Sólnes Jónsson, viðskiptastjóri fyrirtækja hjá Íslandsbanka, Elísabet Sveinsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri Vísindagarða Háskóla Íslands, og Atli Þór Sigurjónsson, viðskiptastjóri fyrirtækja hjá Íslandsbanka.