Borgarráð samþykkti í síðustu viku drög að samkomulagi vegna uppbyggingar á Korputorgi en Korputorg ehf. hyggst auka byggingarmagn á reitnum um 12.500 fermetra. Þar af munu sjö þúsund fermetrar fara undir gagnaver. Fyrir er á svæðinu stórt vöruhús auk hátæknigagnavers.
Sævar Þór Ólafsson framkvæmdastjóri Korputorgs segir í samtali við ViðskiptaMoggann að félagið vanti meira byggingarmagn bæði til þess að geta sinnt væntum þörfum um frekari stækkun á gagnaverinu og einnig vantar byggingarmagn til framtíðar fyrir sambærilega starfsemi og er á Korputorgi í dag. „Korputorgið er búið að breytast í dreifingarmiðstöð þar sem heildsölur nota húsnæðið undir vöruhús,“ útskýrir Sævar.
Eftir því sem fleiri verslanir hverfa úr húsinu minnkar þörfin á bílastæðum að sögn Sævars, en fyrirtækið hyggst byggja á bílastæðunum, líkt og gert var með gagnaverið.
Lóðin sem Korputorg stendur á er tólf hektarar og því hljóða tillögurnar upp á 0,6% nýtingarhlutfall, sem er hófstillt að mati Sævars. „Nýtingarhlutfallið í dag er rúmlega 0,4% en fer upp í 0,6%.“
Gagnaverið á lóðinni er 1.500 fermetrar og er hugsað sem fyrsti áfanginn af átta.
Í vöruhúsinu er í dag margvísleg starfsemi. Vörulager heildsölunnar ÍSAM er þar til húsa ásamt nær allri starfsemi Myllunnar. Þá eru Húsgagnahöllin og Rúmfatalagerinn bæði með sinn miðlæga lager í húsinu. Enn fremur er umbúðafyrirtækið Samhentir þar með geymslulager fyrir hrávöru. Tvær verslanir er enn að finna í húsnæðinu, húsgagnaverslunina Ilvu og Bónus.
Lestu meira um málið í ViðskiptaMogganum í dag.