Baðlónið á Kársnesi, sem fékk nafnið Sky lagoon, verður opnað á föstudaginn eftir viku, en áætlað er að það muni skapa 110 störf. Lónið liggur við sjóinn og er 75 metra langur „óendanleikakantur“ sem ætlað er að gefa þá tilfinningu að himinn og haf renni saman þegar horft er úr lóninu.
Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að staðnum sé ætlað að upphefja íslenska baðmenningu, byggingarsögu og náttúru, en frá lóninu er útsýni yfir á Álftanes og skerin þar fyrir utan. Við byggingu lónsins var meðal annars notast við klömbruhleðslu sem notast var við áður fyrr. Fram kemur að kjarninn í upplifuninni byggist á sjö skrefa spa-ferðalagi þar sem notast er við heitt og kalt vatn, blautgufu, þurrgufu og ferskt sjárloft. „Í lóninu er þurrgufa með stærstu glerrúðu á Íslandi með mögnuðu útsýni út á hafið,“ segir í tilkynningunni.
Að verkefninu stendur fyrirtækið Nature Resort ehf. og kanadíska fyrirtækið Pursuit mun sjá um rekstur baðlónsins. Pursuit kemur nú þegar að ferðamennsku hér á landi í gegnum rekstur sinn á Fly Over Iceland.