Hljóp kapp í kinn

Þórarinn Ævarsson stendur í miklu pizzastríði við Domino's um þessar …
Þórarinn Ævarsson stendur í miklu pizzastríði við Domino's um þessar mundir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þórarinn Ævarsson, eigandi Spaðans, hefur beðist afsökunar á ummælum sem hann lét falla í þætti Dagmála á mbl.is fyrr í vikunni en þar sagðist hann ætla að keyra Domino's í þrot. Fyrirtækið er langstærsti leikandinn á pítsumarkaðnum með hátt í 30 útsölustaði víða um land.

Í yfirlýsingu sem Þórarinn hefur sent Morgunblaðinu og mbl.is segir:

„Í hita leiksins eiga stór orð það til að falla, orð sem eftir á að hyggja hefðu betur verið látin ósögð eða orðuð öðruvísi. Ástríða fyrir málefnum á það til að hleypa manni kapp í kinn, svo ekki sé kveðið fastar að.

Í viðtali í Dagmálum sem birt var sumardaginn fyrsta og vitnað var í á mbl.is var fjallað um pizzamarkaðinn. Þar fór ég hressilega fram úr mér, þegar ég sagði það blákalt að ég muni setja Dominos Pizza á hausinn innan fimm ára.

Það sem ég var í raun að reyna að koma frá mér var það að ef áætlanir Spaðans gengju eftir, um að opna 6 til 7 stór útibú á næstu árum, raungerðust, þá væri rekstrargrundvöllur Dominos Pizza eins og fyrirtækið er sett upp horfinn, en afleiðing þess yrði þá sú að fyrirtækið færi líklega í þrot.

Fylgifiskar þess ríka keppnisskaps sem ég hef blessunarlega fengið eru dramb og hroki. Mér hefur gengið illa á tíðum að hemja þessa fylgifiska og fer versnandi með árunum, og er það verr.

Ég bið því þá afsökunar sem ég hef gengið fram af með óviðeigandi orðalagi mínu, en bendi jafnframt á að í hörðum heimi samkeppni þá eru menn svona almennt, ekkert sérstaklega að óska mótaðilum velgengni.“

Spaðinn opinn í eitt ár

Spaðinn opnaði dyr sínar fyrir viðskiptavinum í maímánuði í fyrra. Var það á Dalvegi í Kópavogi. Síðan hefur fyrirtækið einnig opnað útsölustað í Hafnarfirði og í fyrrnefndu viðtali í Dagmálum sagðist Þórarinn þess albúinn að opna 4-5 staði til viðbótar á komandi árum.

Féllu ummæli Þórarins í Dagmálum í misgrýttan jarðveg og svaraði Domino's Spaðakónginum með nokkuð snaggaralegum hætti í auglýsingu sama dag og þátturinn var birtur á sumardaginn fyrsta.

Þar segir fyrirtækið m.a að það sé „stolt­ur stuðningsaðili allra þeirra sem elska Dom­in­o's í spað“.

Spaðinn reyndi að eignast Domino's

Líkt og fram kemur í viðtalinu við Þórarin í Dagmálum var hann í hópi fjárfesta sem komst nærri því að kaupa rekstur Domino's undir lok árs í fyrra. Þá var fyrirtækið í söluferli í kjölfar þess að breskur eigandi þess til síðustu sex ára ákvað að losa um eignarhlut sinn í því.

Niðurstaðan varð sú að Birgir Bieltvedt keypti fyrirtækið og eignaðist það með því í þriðja sinn. Birgir Bieltvedt var gestur Dagmála fyrir skemmstu og fór þar yfir ferilinn. Viðtalið má nálgast hér.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK