Það hefur gustað um helstu leikendur á pizzamarkaðnum að undanförnu. Birgir Þór Bieltvedt keypti Domino's fyrir skemmstu og er nú í þriðja sinn eigandi að fyrirtækinu. Þórarinn Ævarsson, sem stofnaði Spaðann í fyrra gerði, ásamt fleiri fjárfestum, tilraun til þess að kaupa Domino's í lok árs í fyrra en varð ekki kápan úr því klæðinu. Birgir hreppti hnossið.
Birgir og Þórarinn hafa mætt, hvor í sínu lagi, í þáttinn Dagmál og rætt um pizzamarkaðinn og áskoranirnar sem framundan eru. Ljóst er að sviptingarnar þar eru miklar og Domino's Group í Bretlandi, sem keypti fyrirtækið hér heima fyrir um hálfum áratug tapaði milljörðum króna á fjárfestingu sinni í félaginu hér á landi.
Í viðtölunum upplýstu Þórarinn og Birgir hver uppáhaldspítsan þeirra væri. Þórarinn var fljótur til svars og sagði það vera Spaðaásinn. Spurður út í hvað álegg væri á honum stóð stendur ekki á svari: „Laukur og paprika, pepperóní, skinka, nautakjöt, sveppir, aukaostur og ólífur.“
Benti Þórarinn á að þessi pítsa kostaði 2.500 krónur og að hún væri full máltíð fyrir fjóra.
Birgir er með nokkuð einfaldari smekk og segist alltaf velja margarítu þegar upp er staðið.
„Þegar þú ætlar að bragða gæði pítsu þá snýst þetta um deigið, sósuna og ostinn.“
Hann viðurkennir þó að hann bæti oft salati á pizzuna, annaðhvort til hliðar eða hreinlega ofan á hana.
Stór margaríta hjá Domino's kostar 2.340 krónur.