149 fyrirtæki í þrot í mars

Tíu fyrirtæki í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð voru tekin til gjaldþrotaskipta …
Tíu fyrirtæki í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð voru tekin til gjaldþrotaskipta á fyrsta ársfjórðungi. mbl.is/Eggert

Samtals voru 149 fyrirtæki sem skráð voru í fyrirtækjaskrá Skattsins tekin til gjaldþrotaskipta í mars síðastliðnum.

Af þeim voru 25 með virkni á fyrra ári, það er annaðhvort með launþega samkvæmt staðgreiðsluskrá eða veltu samkvæmt virðisaukaskattskýrslum, sem er 36% fækkun frá mars 2020. Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands. 

Af 290 fyrirtækjum í fyrirtækjaskrá Skattsins, sem tekin voru til gjaldþrotaskipta á fyrsta ársfjórðungi 2021 (janúar-mars), voru 49 með virkni á fyrra ári, 50% færri en á sama tímabili árið 2020 þegar þau voru 98. Þar af voru tíu í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð (72% fækkun), sex í heild- og smásöluverslun og viðgerðum á vélknúnum ökutækjum (71% fækkun), 12 í einkennandi greinum ferðaþjónustu (20% fjölgun) og 21 í öðrum atvinnugreinum (32% fækkun).

Fyrirtæki sem tekin voru til gjaldþrotaskipta á fyrsta ársfjórðungi 2021 höfðu um 387 launamenn að jafnaði árið áður sem er um 57% fækkun frá fyrsta ársfjórðungi 2020 þegar launamenn gjaldþrota fyrirtækja á fyrra ári voru 897.

„Mælt í fjölda launafólks á fyrra ári voru áhrif gjaldþrota á fyrsta ársfjórðungi 2021 minni en á sama ársfjórðungi árið áður í öllum atvinnugreinaflokkum. Í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð var launafólk á fyrra ári til dæmis um 88 sem er 72% fækkun frá sama tímabili 2020 og í einkennandi greinum ferðaþjónustu var fjöldinn um 84 eða 36% færri,“ segir enn fremur á vef Hagstofunnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK