Hagnaður Össurar jókst um 62%

Stoðtækjaþjónustan Össur.
Stoðtækjaþjónustan Össur. Ljósmynd/Aðsend

Hagnaður fyrsta ársfjórðungs hjá Össuri nam 11 milljónum Bandaríkjadala, 1,5 milljörðum króna eða 7% af veltu. Hagnaðurinn jókst um 62% miðað við sama tímabil í fyrra.

Í tilkynningu kemur fram að tekjur Össurar námu 161 milljón dala, sem svarar til 21 milljarðs króna.

„Innri vöxtur var jákvæður um 3% á stoðtækjum samanborið við 4% neikvæðan innri vöxt á fyrsta ársfjórðungi 2020. Innri vöxtur var neikvæður um 1% á spelkum og stuðningsvörum samanborið við 7% neikvæðan innri vöxt á fyrsta ársfjórðungi síðasta árs,“ samkvæmt fréttatilkynningu.

Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) var 18% af veltu félagsins á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 14% á fyrsta ársfjórðungi síðasta árs.

Handbært fé frá rekstri nam 20 milljónum Bandaríkjadala (2,5 milljörðum íslenskra króna) eða 12% af veltu á fyrsta ársfjórðungi samanborið við 31 milljón Bandaríkjadala (3,9 milljarða íslenskra króna) á fyrsta fjórðungi síðasta árs.

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 er óbreytt en hún gerir ráð fyrir 10-15% innri vexti, 21-23% EBITDA (afkoma án tillits til vaxtagreiðslna og vaxtatekna, skattgreiðslna og afskrifta) að teknu tilliti til einskiptisliða, 3-4% fjárfestingarhlutfalli og virku skatthlutfalli á bilinu 23-24%, samkvæmt tilkynningu.

Jón Sigurðsson, forstjóri Össurar, segir í tilkynningu: „Í takt við væntingar sjáum við jákvæða þróun í sölu félagsins en salan jókst sérstaklega þegar leið á ársfjórðunginn. Við erum ánægð að sjá jákvæðan innri vöxt í sölu stoðtækja á fyrsta ársfjórðungi og aukna arðsemi í rekstri. Í kjölfar bólusetninga hafa sumir markaðir opnað en margir af okkar helstu mörkuðum eru enn undir áhrifum af takmörkunum sem hafa verið settar til að hamla útbreiðslu á faraldrinum og óljóst er hversu lengi áhrifin munu vara. Ekki er þó gert ráð fyrir að langtímahorfur á stoðtækja-, spelku- og stuðningsmarkaðinum breytist og ætla má að áhrifin af faraldrinum muni leiða til einhverrar uppsafnaðrar eftirspurnar,“ segir Jón í tilkynningu.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK