Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing hefur tilkynnt tap upp á 537 milljónir bandaríkjadala á fyrsta fjórðungi ársins. Um leið fullyrðir fyrirtækið að viðsnúningur sé í augsýn, með endurkomu 737 MAX-vélanna og ört vaxandi fjölda bólusettra.
„Á meðan heimsfaraldurinn heldur áfram að reyna á markaðsumhverfið í heild sinni, þá lítum við á 2021 sem mikilvægan vendipunkt í okkar iðnaði, þar sem dreifingu bóluefna fleygir fram og við vinnum með ríkisstjórninni og iðnaðinum til að stuðla að traustri endurheimt,“ er haft eftir framkvæmdastjóranum Dave Calhoun í tilkynningunni.
Flugrisinn, sem náði stórum samningum við flugfélög um smíði fleiri 737 MAX-véla á ársfjórðungnum, benti á að færri afhendingar 787 „Dreamliner“-vélanna hefðu dregið úr frammistöðunni á tímabilinu.
Flugmálayfirvöld vestanhafs gáfu MAX-vélunum aftur leyfi til að fljúga í nóvember á síðasta ári. Síðan þá hefur Boeing afhent fleiri en 85 vélar og 21 flugfélag hefur hafið rekstur með vélarnar að nýju.
En fyrr í þessum mánuði lét framleiðandinn sextán flugfélög vita af rafmagnsvandamáli í þotunum. Í kjölfarið voru fleiri en hundrað vélar kyrrsettar á heimsvísu.