Hlutabréf í Twitter tóku dýfu þrátt fyrir hagnað

Hlutabréf í Twitter tóku allt að 10% dýfu í morgun.
Hlutabréf í Twitter tóku allt að 10% dýfu í morgun. AFP

Hlutabréf í netrisanum Twitter tóku hressilega dýfu á mörkuðum vestra í dag þegar fjórðungsuppgjör fyrirtækisins var birt og sýndi minni hagnað og minni vöxt en búist var við.

Þrátt fyrir að hafa hagnast um 68 milljónir dollara á fyrsta ársfjórðungi, samanborið við 8 milljón dollara tap á sama tíma í fyrra, lækkaði virði hlutabréfa í fyrirtækinu um allt að 10% á fyrstu klukkustundunum eftir að uppgjörið var birt.

Svo virðist sem margir fjárfestar séu áhyggjufullir um að Twitter sé ekki að aðlagast nógu hratt að síbreytilegu rekstraumhverfi stærstu samfélagsmiðlanna. Er þar helst að kenna lakari vexti í fjölda notenda en gert var ráð fyrir. Í frétt AFP segir að Twitter eigi erfitt með að færa út kvíarnar, út fyrir meginnotendahóp sinn sem fylgir helst stjórnmálamönnum, stórstjörnum og blaðamönnum. 

Í tilkynningu frá Twitter segir þó að fjórðungsuppgjörið sýni fram á fína byrjun á árinu. 

„Fólk snýr sér til okkar þegar það vill vita hvað er að gerast og til þess að ræða saman um það sem er í brennidepli. Við erum að reyna að gera fólki auðveldara að finna það efni sem hentar þeim best og taka þátt í umræðum um þá hluti,“ er haft eftir Jack Dorsey, forstjóra Twitter. 

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK