Tekur Icelandair námu 7,3 milljörðum króna á fyrsta ársfjórðungi ársins 2021 og voru 73% lægri en á fyrsta ársfjórðungi í fyrra.
Tap félagsins er þó mun minna en á fyrsta ársfjórðungi ársins 2020, en það nam 3,9 milljörðum króna samanborið við 30,8 milljarða króna á fyrsta ársfjórðungi í fyrra. Þetta kemur fram í uppgjöri félagsins fyrir fyrsta ársfjórðung.
Sætaframboð félagsins dróst saman um 92% milli ára. Vegna gríðarlegrar óvissu um þróun kórónuveirufaraldursins mun félagið ekki gefa út afkomuspá fyrir árið 2021, en gert er ráð fyrir að flug fari að aukast á ný frá og með yfirstandandi ársfjórðungi.
Þrátt fyrir mikinn samdrátt í farþegaflugi, jukust tekjur af fraktstarfsemi um 64% milli ára og flutt frakt var umfram það magn sem flutt var fyrir faraldurinn. Eiginfjárhlutfall félagsins, leiðrétt fyrir tímabundnum áhrifum áskriftarréttinda, var 23% samanborið við 25% í byrjun árs.
Lausafjárstaða félagsins nemur 35,8 milljörðum króna, en þar af er handbært fé og lausafjársjóðir að fjárhæð 14 milljarða króna.
Í mars lauk samþættingu Air Iceland Connect (áður Flugfélags Íslands) og Icelandair en áætlað er að hún feli í sér 381 milljónar króna kostnaðarhagræðingu á ári hverju ásamt auknum tekjumöguleikum í gegnum sameinað vörumerki, dreifikerfi og leiðakerfi.
Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir rekstrarniðurstöðuna ásættanlega þegar tekið er tillit til áhrifa faraldursins. Áhersla á markvissa leiðakerfisstýringu og öflugt kostnaðaraðhald, ásamt góðum árangri í fraktflutningum hafi skilað því.
„Þá sjáum við jákvæð teikn um aukið umfang í innanlandsfluginu en samþætting þess og alþjóðaflugsins mun stuðla að sterkara og skilvirkara flugfélagi og betri þjónustu við farþega,“ er haft eftir honum í tilkynningu.
Þá segir Bogi að framvinda bólusetninga, sérstaklega á mörkuðum eins og í Bandaríkjunum, og möguleg aflétting ferðatakmarkana í Evrópu fyrir bólusetta ferðamenn fela í sér jákvæð skref.
Bogi segir mikil tækifæri fyrir Ísland og íslenska ferðaþjónustu þegar markaðir opna á ný og bendir á að eldgosið á Reykjanesskaga hafi vakið enn meiri athygli á Íslandi sem áfangastað. „Við erum tilbúin að auka flugið um leið og ástandið í heiminum batnar en sveigjanleiki leiðakerfis Icelandair og öflugir innviðir félagsins gera okkur kleift að bregðast hratt við breytingum á mörkuðum,“ segir hann.