Þórarinn Ævarsson, eigandi Spaðans segir undarlegt að verkalýðshreyfingin skuli ekki láta í sér heyra þegar fjallað sé um augljós undanskot tiltekinna fyrirtækja á veitingamarkaði.
Fyrir skemmstu tjáði Birgir Örn Birgisson, fráfarandi framkvæmdastjóri Domino's á Íslandi sig um meint undanskot í starfsemi ónefnds veitingastaðar á höfuðborgarsvæðinu. Það gerði hann í viðtali við Markaðinn, fylgirit Fréttablaðsins, án þess að vísa beint á fyrirtækið. Vefur Viðskiptablaðsins, vb.is, tók af honum ómakið og upplýsti hvaða fyrirtækis hann var að vísa til. Þar sagði:
„Verður ekki betur séð en umrætt fyrirtæki sem Birgir vísar til sé veitingastaðurinn Mandi. Samkvæmt nýjasta ársreikningi HALAL ehf., rekstraraðila MAndi, fyrir ári ð2019 námu tekjur veitingastaðarins 419,5 milljónum króna á árinu, meðan laun og launatengd gjöld námu 53,6 milljónum króna. Var launahlutfall veitingastaðarins það árið því ríflega 12%.“
Þórarinn Ævarsson, eigandi Spaðans, var í viðtali í Dagmálum á dögunum og var hann spurður út í hvort svört atvinnustarfsemi væri að plaga veitingageirann. Sagði hann að brögð væru að því að fyrirtæki væru að borga laun fram hjá kerfinu og að það skekkti samkeppnisstöðu þeirra sem vildu hafa sitt á hreinu.
„Það er ekki alstaðar verið að gera þetta rétt. Þetta dæmi sem hann vísar til, án þess að ég hafi nákvæmlega kafað ofan í það, þá er ekki annað að sjá en að það sé eitthað óeðlilegt í gangi. Fyrirtæki sem er opið bróðurpartinn af sólarhringnum og þar af yfir nóttina þegar launin eru hvað hæst með fjöldan allan af fólki í vinnu. Að gefa upp launatölur sem eru bara brot af því sem aðrir eru að gefa upp og þessa miklu veltu sem þeir eru að sýna. Þetta gengur einfaldlega ekki upp. Ég myndi halda að það væri mjög eðlilegt að skattrannsóknarstjóri skoðaði þetta einfaldlega. Það er mjög auðvelt að reikna sig að þessu. Það eru sjö manns að vinna þarna í hádeginu á virkum degi og þeir kosta allir sitt þannig að menn geta mjög auðveldlega reiknað sig að því hvort þetta sé vindur í mér og Birgi Erni hjá Domino‘s eða hvort þetta sé eitthvað sm stenst ekki skoðun.“
Í viðtalinu var Þórarinn spurður út í hvað gæti skýrt það af hverju ekki sé tekið á augljósum undanskotum sagði hann að erfitt væri að átta sig á því. Hins vegar gagnrýndi hann verkalýðshreyfinguna fyrir að standa hjá án þess að láta til sín taka.
„Mér finnst svolítið sérstakt að það hefur hvorki heyrst hósti né stuna hjá verkalýðshreyfingunni varðandi þetta mál. Þetta tengist innflytjendum og það er eins og að þeir séu pínu stikkfrí í svona málum. Eins og að það sé dálítið horft fram hjá því varðandi hluti og við þekkjum þetta líka með asíska veitingastaði þar sem jafnvel öll stórfjölskyldan er að vinna en það er einn eða tveir á launaskrá. Þetta gengi ekki annarsstaðar.“
Uppfært kl. 13.58:
Mbl.is hafði samband við Sólveigu Önnu Jónsdóttur, formann Eflingar, sem vildi ekki tjá sig um málið og benti á að skattrannsóknaryfirvöld væru betur til þess fallin að svara fyrir það.