Greiddar gistinætur á öllum tegundum gististaða í mars síðastliðnum drógust saman um 64% samanborið við mars 2020. Þar af fækkaði gistinóttum á hótelum um 72%, um 58% á gistiheimilum og um 46% á öðrum tegundum skráðra gististaða (farfuglaheimilum, orlofshúsum o.s.frv.). Þetta kemur fram á vef Hagstofu Íslands.
Greiddar gistinætur ferðamanna á öllum gististöðum voru um 98.000 í mars en þær voru um 322.000 í sama mánuði árið áður. Íslenskar gistinætur voru um 77.000 sem er 164% aukning frá fyrra ári. Um 79% gistinátta voru skráðar á Íslendinga og 21% á erlenda gesti eða um 21.000 nætur. Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru um 65.000, þar af 48.700 á hótelum.
Framboð hótelherbergja í mars minnkaði um 37,4% frá mars 2020. Herbergjanýting á hótelum var 14,0% og dróst saman um 16,2 prósentustig frá fyrra ári.
Gistinætur á hótelum í mars voru 48.700 og dróst hótelgisting í mánuðinum saman á milli ára í öllum landshlutum nema á Norðurlandi. Mestur var samdrátturinn á höfuðborgarsvæðinu þar sem gistinóttum í mars fækkaði úr 108.000 í 17.900 á milli ára eða um 83%.
Á sama tíma dróst framboð hótelherbergja á höfuðborgarsvæðinu saman um 56% á milli ára um leið og herbergjanýting féll um 23 prósentustig og var hún 15,4% í mars. 11.100 gistinætur voru á Norðurlandi í mars sem er 9% aukning frá fyrra ári. Framboð hótelherbergja á Norðurlandi dróst saman um 23% frá mars 2020 en herbergjanýting jókst á sama tíma um 5,9 prósentustig, í 22,9%.
Gistinætur erlendra ferðamanna á hótelum í mars drógust saman um 94% á milli ára en íslenskum gistinóttum fjölgaði um 97%. Gistinætur Íslendinga voru 39.700, eða 81% af hótelgistinóttum, á meðan erlendar gistinætur voru 9.100 eða 19%. Á tólf mánaða tímabili frá apríl 2020 til mars 2021 var heildarfjöldi gistinátta á hótelum um 808.100 sem er 81% fækkun frá sama tímabili ári áður.
„Rétt er að hafa í huga að um miðjan mars í fyrra var fyrsta samkomubann til að hefta útbreiðslu kórónuveirunnar sett á og ferðamannastraumur til landsins dróst verulega saman.
Þar sem landamærarannsókn Ferðamálastofu og Hagstofu Íslands liggur niðri, vegna mikillar fækkunar brottfara frá Keflavíkurflugvelli, var ekki unnt að áætla fjölda erlendra gistinátta á stöðum sem miðla heimagistingu í gegnum Airbnb og svipaðar síður en þær voru um 47.000 í mars 2020,“ segir á vef Hagstofu Íslands.