Reglulegri evrusölu Seðlabankans hætt

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri.
Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri. mbl.is/Hari

Reglulegri gjaldeyrissölu Seðlabanka Íslands verður hætt frá og með mánudeginum. Bankinn hóf reglulega sölu gjaldeyris til svokallaðra viðskiptavaka 14. september í kjölfar þess að gengi krónunnar hafði veikst töluvert vegna samdráttar í útflutningstekjum, sem einkum má rekja til fækkunar ferðamanna.

Alls seldi bankinn 453 milljónir evra (72,1 milljarð króna) á tímabilinu, en það var gert með þeim hætti að þrjár milljónir evra voru seldar á hverjum viðskiptadegi, fimm daga vikunnar, allt til 7. apríl þegar viðskiptadögunum var fækkað í þrjá í hverri viku.

Um töluvert inngrip á gjaldeyrismarkað er að ræða, en reglubundin gjaldeyrissala bankans frá 14. september til 30. apríl nam um 22,2% af heildarveltu íslenska gjaldeyrismarkaðarins og 50,8% af heildarveltu Seðlabankans með gjaldeyri.

Seðlabankinn seldi 3 milljónir evra upp á hvern einasta viðskiptadag …
Seðlabankinn seldi 3 milljónir evra upp á hvern einasta viðskiptadag frá í september þar til fyrr í þessum mánuði. Á sama tíma hefur gengi krónu styrkst um 11% gagnvart evru. AFP

Í tilkynningu frá bankanum segir að með hliðsjón af gengisstyrkingu íslensku krónunnar undanfarnar vikur og betra jafnvægi á gjaldeyrismarkaði telji bankinn ekki lengur þörf á reglulegri gjaldeyrissölu. Bankinn muni þó eftir sem áður grípa inn í markaðinn til að draga úr sveiflum telji hann tilefni til.

Gengisvísitala krónunnar, sem inniheldur vegið meðaltal á gengi erlendra gjaldmiðla, hækkaði skarpt eftir að kórónuveirufaraldurinn fór að láta á sér kræla og hækkaði um 15 prósent á um tveimur mánuðum frá febrúar 2020 fram í apríl 2020.

Náði hún hámarki í september stuttu áður en reglubundið inngrip bankans hófst. Á þeim tíma kostaði ein evra um 165 krónur og hafði hækkað um tæp 20% á sjö mánuðum. Gengisvísitalan hefur síðan lækkað nokkuð og stendur evran nú í um 150 krónum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK