Undanfarið hafa birst fréttir af endurbótum og breytingum sem gerðar hafa verið á eldri atvinnu- og geymsluhúsum í Reykjavík. Nýlega var samþykkt að breyta Ægisgötu 7 í íbúðarhús og birtist frétt um það í Morgunblaðinu 25. mars síðastliðinn.
Á síðasta fundi borgarráðs var svo samþykkt að auglýsa breytingu á Nýlendureit sem felur í sér að breyta öðru húsi sem stendur í grennd við Slippinn og Gömlu höfnina. Þetta er húsið Nýlendugata 14, en framhlið þess snýr að Mýrargötu. Margvísleg starfsemi hefur verið í þessu húsi í gegnum árin en þekktast er það í dag fyrir veitingahúsið Forréttabarinn, sem rekið hefur verið þar sl. 10 ár. Myndlistarmenn eru með vinnustofur á efri hæðum.
Tillagan að nýju deiliskipulagi Nýlendureits er unnin af THG arkitektum. Helstu breytingarnar eru þær að þaki Nýlendugötu 14 verður snúið svo hæsti punktur þess verður við Mýrargötu en í dag rís það hæst Nýlendugötumegin. Þakbygging með svölum verður heimil á lágþaki núverandi húss. Franskar svalir verða leyfðar á norðurhlið hússins og venjulegar svalir sunnanmegin. Þá verður lyftu komið fyrir í húsinu.
Húsið Nýlendugata 14 var reist árið 1939 sem geymsluhús. Guðmundur H. Þorláksson byggingameistari teiknaði húsið og fyrsti eigandi þess var Ingimar Þorsteinsson, að því er fram kemur í húskönnun Borgarsögusafns frá 2003. Húsið er í fúnkísstíl og hefur breyst mikið frá upphaflegri gerð. Það telst í dag vera 826 fermetrar.
Fram kemur í húsakönnuninni að fyrsta hús á lóðinni var timburskúr, sem virtur var 1911, og Jón Laxdal kaupmaður reisti. Í virðingunni árið 1915 er sagt að húsið hafi áður verið notað fyrir fiskgeymslu en nú sé verið að breyta því í gosdrykkjaverksmiðju. Árið 1923 var virt nýtt geymsluhús á lóðinni. Það var byggt úr bindingsverki. Árið 1939 er virt ný járnsmiðja úr steinsteypu á lóðinni. Árið 1944 fær Ingimar leyfi til að byggja þrílyfta járnsmíðavinnustofu úr steinsteypu á lóðinni en viðbyggingin er tvær hæðir með skáþaki og úr steinsteypu. Í virðingu er viðbyggingin sögð vera byrjun á framtíðarhúsnæði. Sama ár voru timburskúrarnir rifnir og er því elsta húsið á lóðinni járnsmiðjan frá 1939. Húseignin var virt á ný árið 1962 og hafði þá verið byggt ofan á hana úr steinsteypu og er húsið allt slétthúðað og málað utan. Í húsinu var þá járnsmiðja og prentsmiðja. Tveir nýir vinnusalir fyrir sælgætisgerð voru þá á þakhæðinni.