Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA), segir að allar forsendur efnahags- og atvinnulífs, þar á meðal forsendur kjarasamninga, hafi fokið út í veður og vind með heimsfaraldrinum. Þar hafi mestu varðað að viðhalda ráðningarsambandi launþega og vinnuveitenda.
„Það er hrollvekjandi að hugsa til þess að fyrir aðeins ári voru hópar í samfélaginu, sem töldu [faraldurinn] aðeins vera minni háttar hraðahindrun, sem ekki væri sérstök ástæða til þess að bregðast við,“ segir Halldór Benjamín og vísar til samtals SA og verkalýðshreyfingar.
„Við fórum í gegnum launahækkun í upphafi kreppunnar, sem ég tel að hafi verið mjög misráðin og ég held að við þurfum að halda því samtali til haga.“
Lífskjarasamningarnir fyrir tveimur árum hafi miðað við allt aðrar aðstæður, en verkalýðshreyfingin ekki tekið í mál að hrófla við því þegar allar forsendur breytist á einni nóttu.
„Afleiðingarnar af launahækkunum í kreppu verða þær að atvinnuleysi verður meira en ella, viðspyrnan verður hægari en ella og verðbólgan mun fara af stað. Og hvað hefur gerst? Nákvæmlega það,sem varað var við,“ segir Halldór Benjamín.
Halldór Benjamín ræddi við Andrés Magnússon í Dagmálsþætti dagsins. Þættirnir eru aðgengilegir áskrifendum Morgunblaðsins hér einnig er hægt að kaupa vikupassa.