Ný frönsk netverslun býður Stella Artois-bjór á 25% lægra verði en hægt er að kaupa bjórinn á í Vínbúðunum. Kostar f33 cl flaska 288 krónur í netversluninni, borið saman við 389 krónur í ríkisversluninni.
Í netversluninni er að lágmarki hægt að panta 24 flöskur af bjórnum eða einn kassa og er hann 2.424 krónum ódýrari en ef sama magn væri keypt í Vínbúðunum.
Arnar Sigurðsson, eigandi Santewines SAS, sem rekur netverslunina sante.is segir að þessi kjör séu til mikilla hagsbóta fyrir neytendur og verði öðrum innflutningsaðilum hvatning til að herða sig í samkeppninni.
Sante.is býður viðskiptavinum sínum að sækja vörur sem keyptar eru á vefsíðunni á lager á Eyjarslóð á Granda en þá er einnig hægt að kaupa heimsendingu með Dropp fyrir 1.250 krónur. Þeir sem vilja fá vörurnar afhentar á afhendingarstað Dropp borga fyrir það 605 krónur.
„Þetta er í raun bætt þjónusta við neytendur. Þú getur keypt hjá okkur bjórinn og fengið sendan heim að dyrum og samt er kassinn ódýrari en ef þú keyptir hann í Vínbúðunum. Við erum að opna þennan markað fyrir Íslendingum og færa inn í nútímann,“ segir Arnar.
Spurður út í viðtökurnar sem verslunin hefur fengið, segir hann að þær séu frábærar. Starfsfólk hafi vart undan við að afgreiða pantanir sem streymt hafi inn síðan eldsnemma í morgun.