Ósk Heiða Sveinsdóttir er nýr forstöðumaður þjónustu og markaða hjá Póstinum og fer því úr fyrra starfi sem markaðsstjóri fyrirtækisins. Ósk Heiða hefur á ferli sínum meðal annars starfað sem markaðsstjóri Krónunnar, Trackwell og Íslandshótela, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.
Ósk Heiða er með meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum og markaðsfræði frá Háskóla Íslands.
„Ég er mjög ánægð og þakklát fyrir það traust sem mér er sýnt og hlakka til að takast á við verkefnin sem fram undan eru. Á undanförnum misserum hafa verið tekin mikilvæg skref til þess að standa nær viðskiptavinum þar sem áhersla er á bætta þjónustu, fleiri afhendingarleiðir, stafræna þróun og að eiga þétt samtal við markaðinn,“ segir Ósk Heiða Sveinsdóttir í tilkynningunni.