Alls bárust 666 umsóknir fyrir sumarstörf hjá Norðuráli í ár. Þá auglýsti fyrirtækið einnig laus störf í ker- og steypuskála á sama tíma og bárust 159 umsóknir í þau störf. Alls sóttu því 825 um störf hjá álverinu.
Nýráðningar vegna sumarstarfa voru alls 109, en þar til viðbótar bætast um hundrað manns sem koma aftur til starfa eftir að hafa unnið í álverinu síðasta sumar. Lögð var áhersla á það í ráðningarferlinu að hafa kynjahlutföll eins jöfn og unnt var og verður hlutfall kvenna meðal sumarstarfsfólks um 40%, að því er félagið greinir frá í tilkynningu.
Nýjar fastráðningar í ker- og steypuskála eru til komnar vegna breytinga á vaktakerfi, sem tóku gildi 1. maí. Tólf tíma vaktir heyra nú að mestu sögunni til hjá Norðuráli og eru nær allar vaktir átta tímar sem mun til dæmis henta fjölskyldufólki betur. Kallaði það á fjölgun starfsfólks, segir enn fremur.