„Hækkun á álverði kemur sér vel, bæði fyrir okkur en líka fyrir íslenskan þjóðarbúskap. Álverð í dag er um 75% hærra en það var fyrir ári en þá voru aðstæður mjög óvenjulegar þegar Covid-19-faraldurinn fór á flug og heilu iðngreinarnar skelltu nánast í lás. Aukin eftirspurn og hækkandi álverð helst líklega í hendur við að enn er verið að vinda ofan af þessu ástandi. Þá er vöxtur í notkun á áli umfram aðra málma sem eykur enn á eftirspurnina.“ Þannig lýsir Bjarni Már Gylfason, upplýsingafulltrúi Rio Tinto á Íslandi, stöðunni á álmarkaðnum í dag.
Stappar nú verðið nærri sínu hæsta gildi í heilan áratug og hefur orðið umpólun á markaðnum á einu ári.
„Sem fyrr leikur Kína stórt hlutverk í þessari þróun en það er ómögulegt að segja hvert stefnir, sem sést vel á þessum miklu verðsveiflum á áli síðastliðið ár. Staðan er hins vegar góð núna og vonandi helst það áfram,“ segir Bjarni Már. Þessi breytta staða hefur áhrif víðar en í álgeiranum sem slíkum. Með hækkandi verði hafa álverin í mörgum tilvikum fært sig nær hámarksafköstum, ólíkt því sem var fyrir ári þegar þau í einhverjum tilvikum nýttu sér heimildir í raforkukaupasamningum til að halda að sér höndum í framleiðslunni. Kvað svo rammt að rekstrarerfiðleikum álversins í Straumsvík á síðasta ári þegar álverðið var í lægstu lægðum að þeim hugmyndum var hreyft að loka álverinu í tvö ár meðan markaðurinn næði sér á strik að nýju.
Lestu meira um málið í ViðskiptaMogganum í dag.