Líftæknifyrirtækið Lytix Biopharma hefur fengið leyfi til að stunda annars stigs rannsóknir við meðferðarsjúkrahús í Bandaríkjunum sem er leiðandi í krabbameinsrannsóknum á heimsvísu.
Um leið undirbýr fyrirtækið skráningu á hlutabréfamarkaðinn Euronext Growth í Ósló, að því er segir í tilkynningu.
Lytix Biopharma á rætur að rekja til Háskólans í Tromsø í norðurhluta Noregs. Baldur Sveinbjörnsson, prófessor við læknadeild skólans, hefur verið lykilmaður í fyrirtækinu allt frá stofnun. Hann er í dag rannsóknarstjóri fyrirtækisins og sá sem þróað hefur lyfjakandídata Lytix ásamt stofnandanum Øystein Rekdal.
„Krabbamein er meðal illvígustu sjúkdóma sem herja á þjóðir heims sem stafar að mestu af því að krabbameinsfrumur breytast stöðugt og eru erfiðar í meðferð. Það að við ættum eftir að ná þangað sem við erum í dag held ég að hvorki Øystein né ég hafi dreymt um þegar við í Háskólanum í Tromsø árið 1996 sáum að hægt væri að þróa mjólkurprótein til að drepa krabbameinsfrumur,“ segir Baldur í tilkynningunni.
Hann segist hlakka til að hitta íslenska fjárfesta á næstu vikum til að kynna þeim fyrirtækið. „Í ljósi þess mikla áhuga sem er á Íslandi á erfðafræði og læknavísindum vonumst við til þess að íslenskir fjárfestar taki þátt í skráningunni,“ bætir hann við.
Akureyringurinn Baldur er í forsvari nú þegar fyrirtækið hyggst afla hundraða milljóna króna áður en það verður skráð í kauphöllinni í Ósló en skráningin á Euronext Growth Oslo mun styðja við áform fyrirtækisins til áframhaldandi vaxtar.
„Við munum leitast við að taka upp stefnumótandi samstarf við ýmsa aðila í lyfjaiðnaðinum og við helstu líftæknifyrirtæki til að hámarka líkurnar á að okkar lyfjakandidatar verði notaðar til að meðhöndla sjúklinga um allan heim og geti komið að klínískum notum sem fyrst,“ segir Baldur.