Spá stýrivaxtahækkun og hömlum á fasteignalán

Greiningardeild Íslandbanka spáir því að stýrivextir verði hækkaðir úr 0,75% …
Greiningardeild Íslandbanka spáir því að stýrivextir verði hækkaðir úr 0,75% í 1% við vaxtaákvörðun í næstu viku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Greiningardeild Íslandsbanka spáir því að peningastefnunefnd Seðlabankans muni hækka stýrivexti um 0,25 prósentustig við næstu vaxtaákvörðun miðvikudaginn 19. maí.

Mikil verðbólga ásamt minnkandi óvissu um efnahagsbatann eru taldar helstu ástæður þeirrar spár. Stýrivextir eru nú 0,75% og hafa aldrei verið lægri, en vextirnir hafa lækkað um 2,75 prósentustig á einu og hálfu ári.

Síðast voru stýrivextir lækkaðir úr 1% í 0,75% í nóvember í fyrra en þeir höfðu þá verið óbreyttir frá því í maí. Í spá greiningardeildarinnar segir þó að ekki sé útilokað að stýrivöxtum verið haldið óbreyttum enda sé snúið að spá í „vaxtaspilin“ þessa dagana.

Hertari reglur um fasteignalán líklegar

Í spánni segir enn fremur að talið sé líklegt að fljótlega verði hert á reglum um takmarkanir á fasteignalánum, en þær eru á forræði fjármálastöðugleikanefndar bankans. Núgildandi reglur segja til um að ekki megi lána fyrir hærra hlutfalli af markaðsverði eignar en 85% en nefndin gæti gripið til þess ráðs að lækka það hlutfall og jafnvel bætt við takmörkunum á lánsfjárhæð eða greiðslubyrði miðað við tekjur.

Í áliti Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um efnahagsstöðu á Íslandi frá því í síðasta mánuði var meðal annars bent á að fasteignaverð hefði hækkað hratt að undanförnu og hlutfall fyrstu kaupenda aldrei verið hærra. Sagði þar að hraður vöxtur fasteignalána gæti skapað áhættu sem bregðast þyrfti við.

Í samtali við Morgunblaðið af því tilefni benti Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri á að bankinn hefði þessi tæki til að bregðast við því, viðmiðunarmörk fyrir veðsetningu og hámark á höfuðstól sem hlutfall af tekjum. Taldi hann ekki tímabært þá að beita slíkum tækum en sagði að sá tími gæti komið.

Fast­eigna­verð hef­ur hækkað hratt að und­an­förnu og hlut­fall fyrstu kaup­enda aldrei verið hærra. Í áliti AGS er bent á að hraður vöxt­ur fast­eignalána geti skapað áhættu sem bregðast þurfi við.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Loka