Play er komið með flugrekstrarleyfi frá Samgöngustofu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá félaginu sem send var núna á tólfta tímanum. Þá segir jafnframt að fyrsta flugvél fyrirtækisins, sem er af gerðinni Airbus A321 Neo, hafi verið tekin út af flugvirkjum félagsins og að skráningu hafi lokið seint í gærkvöldi að íslenskum tíma með flugrekstrarleyfi frá Samgöngustofu.
Nýja vélin hefur skráninganúmerið TF-AEW og fer nú í skýli þar sem hún verður máluð í einkennislitum Play, að því loknu verður flogið með vélina til Íslands og verður hún þá tilbúin til að hefja fyrsta áætlunarflug félagsins.
TF-AEW er fyrst þriggja systurvéla sem Play hefur tryggt sér frá AerCap, stærsta flugvélaleigusala í heimi. Vélar tvö og þrjú eru í innleiðingu og skráningu eins og stendur og koma einnig til landsins á næstu vikum samhliða stækkun leiðakerfis Play.
Það voru þeir Andri Geir Eyjólfsson forstöðumaður tæknideildar, Halldór Guðfinnsson og Friðrik Ottesen flugstjórar sem tóku við fyrstu vélinni, en auk þeirra voru flugvirkjar og fulltrúar Samgöngustofu sem hafa verið í Houston í Bandaríkjunum í vikunni og unnið að úttekt á vélinni. Arnar Már Magnússon, einn stofnenda Play og framkvæmdastjóri flugrekstrarsviðs, hefur haft veg og vanda af ferlinu, að því er fram kemur í tilkynningunni.
Haft er eftir Birgi Jónssyni, forstjóra Play, að félagið ætli að bjóða „samkeppnishæft verð og einfalt ferðalag“ og verða nauðsynleg viðbót á íslenskan flugmarkað.