Þjóðskrá hefur birt leiðrétta vísitölu íbúðaverðs fyrir mars 2021 en við yfirferð kom í ljós villa í tölum sem birtar voru 20. apríl síðastliðinn. Biðst Þjóðskrá velvirðingar á mistökunum í tilkynningu.
Greint hafði verið frá því að vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hefði hækkað um 1,6% í marsmánuði en raunin er sú að hækkunin er mun meiri eða 3,3% milli mánaða.
Vísitalan hefur ekki hækkað meira á milli mánaða frá maí 2007. Þá hækkaði hún úr 324 í 335,7 á milli mánaða. Nú hækkaði hún úr 688,9 í 711,7 á milli mánaða.
Síðastliðna þrjá mánuði hefur vísitalan hækkað um 4,0%, síðatliðna 6 mánuði var hækkunin 6,5% og síðustu 12 mánuði hækkaði hún um 10,7%.
Birtingu vísitölunnar er ætlað að varpa ljósi á þróun fasteignaverðs samkvæmt þeim gögnum sem liggja fyrir á hverjum tíma.
Íbúðarhúsnæði er skipt í flokka eftir stærð og hvort það telst fjölbýli eða sérbýli. Reiknað er meðalfermetraverð fyrir 9 flokka íbúðarhúsnæðis og er niðurstaðan vegin með hlutdeild viðkomandi flokks í heildarverðmæti á markaði miðað við undangengna 24 mánuði.