Viðskipti með hlutabréf í fjölmiðlaveldinu Next Digital Limited í Hong Kong, sem stutt hefur við lýðræðishreyfingu landsins, voru stöðvuð í dag eftir að yfirvöld frystu eignir eiganda þess á grundvelli nýrra umdeildra öryggislaga. Þetta kemur fram í frétt AFP.
Jimmy Lai, sem á um 70 prósent af hlutabréfum Next Digital, játaði sök fyrr í dag ásamt níu öðrum aðgerðasinnum vegna ákæru um ólögmæta samkomu. Ákæran er ein fjölmargra sem höfðaðar hafa verið gegn lýðræðissinnum í borginni.
Í tilkynningu til kauphallarinnar óskaði Next Digital Limited, sem gefur út fréttablaðið Apple Daily, eftir því að viðskipti með hlutabréf þess yrðu stöðvuð þar til yfirlýsing yrði gefin út vegna frosinna eigna Lai.
Yfirvöld í Hong Kong frystu hlutabréf Lai ásamt þremur bankareikningum hans á grundvelli öryggislaga sem yfirvöld í Peking innleiddu í borginni á síðasta ári. Lögin eru verulega umdeild.
Þetta er í fyrsta skipti sem yfirvöld hafa beitt lögunum til að frysta eignir meirihlutaeiganda í skráðu fyrirtæki. Talið er að það gæti valdið frekara óöryggi meðal fjárfesta í viðskiptalífi borgarinnar.
Hinn auðugi Jimmy Lai hefur lengi verið horn í síðu yfirvalda í Peking vegna stuðnings hans við lýðræði í Hong Kong og útgáfu blaða með þeim boðskap. Hann situr nú þegar í fangelsi og tekur út fjórtán mánaða dóm fyrir þátttöku í mótmælum.
Apply Daily er vinsælasta blað Hong Kong og hefur stutt dyggilega við hreyfingu lýðræðissinna í borginni. Blaðið studdi meðal annars fjölmenn mótmæli sem breiddust út í borginni árið 2019.
Kínversk yfirvöld hafa ekki dregið dul á vilja sinn til að stöðva útgáfu Apple Daily og þagga niður í Lai. Þá hefur yfirmaður lögreglu Hong Kong sakað Apple Daily um að birta falsfréttir.
Apple Daily gaf út yfirlýsingu um helgina að starfsmenn þess myndu halda áfram að flytja fréttir án ótta við afleiðingarnar. Þrátt fyrir það er talið að fyrirtækið muni einungis geta starfað í níu eða tíu mánuði í viðbót án fjárframlaga frá Lai, en hann hefur nýtt djúpa sjóði sína til að halda blaðinu gangandi.
Fleiri en 100 einstaklingar hafa verið handteknir á grundvelli nýju öryggislaganna, þar á meðal sumir af fremstu lýðræðisaðgerðasinnum borgarinnar. Þeir sem eru dæmdir sekir eiga yfir höfði sér allt að lífstíðardóm.