Rebekka Líf Ingadóttir
„Þetta hefur náttúrlega bara farið langt fram úr björtustu vonum,“ sagði Birgir Jónsson, forstjóri flugfélagsins Play. Flugfélagið hóf sölu á flugmiðum til sjö áfangastaða í Evrópu á sjötta tímanum í dag en fyrsta flug félagsins verður 24. júní.
Til marks um áfangann voru 1.000 fríir flugmiðar í boði sem leita þurfti að á bókunarsíðu flugfélagsins. Miðunum var dreift á mánuði og voru því nokkrar dagsetningar í hverjum mánuði þar sem miðarnir leyndust. „Miðarnir kláruðust nú frekar snemma í morgun, eftir að við sendum út póstinn,“ sagði Birgir.
Fyrsta flugið verður til London og kostar miðinn þangað frá 6.500 krónum. Aðrir áfangastaðir eru Alicante, Barcelona, Berlín, Kaupmannahöfn, París og Tenerife. Flug á þá áfangastaði hefst í júlí. Til að mynda er hægt að bóka ferð til Tenerife 3. júlí og Berlínar 5. júlí, Alicante 17. júlí og Barcelona 23. júlí. París verður í boði frá 18. júlí og Kaupmannahöfn 22. júlí.