Verðbólgan nær hámarki á öðrum ársfjórðungi 2021 samkvæmt hagspá Landsbankans og verður töluvert yfir markmiði út þetta ár en verður komin í markmið um mitt næsta ár. Gert er ráð fyrir að verðbólga verði að meðaltali 4% í ár, 2,5% á næsta ári og 2,6% árið 2023.
Í nýrri hagspá bankans kemur fram að verðbólguhorfurnar til skamms tíma hafa versnað nokkuð frá því í haust. Það skýrist m.a. af meiri spennu á fasteignamarkaði en reiknað var með sem hefur leitt til hærri húsnæðiskostnaðar. Verð á þjónustu hefur einnig hækkað meira en reiknað var með og alþjóðlegar verðbólguhorfur til skemmri tíma hafa versnað.
Töluverðs kostnaðarþrýstings gætir nú innanlands vegna hækkandi launakostnaðar og fasteignaverðs, og erlendis vegna tímabundinna áhrifa faraldursins að því er segir í spá Landsbankans sem nær til 2021 til 2023.
„Við eigum þó von á að verðbólgan hjaðni tiltölulega hratt. Verulegur framleiðsluslaki næstu misseri, styrking krónunnar, aukin erlend samkeppni í ljósi opnunar landamæra og hófleg hækkun stýrivaxta munu vega þyngra en þeir þættir sem nú knýja verðbólguna áfram.
Við gerum ráð fyrir verðbólgan nái hámarki á 2. ársfjórðungi í ár en verðbólgumarkmiðinu verði náð ári síðar og haldist nálægt markmiði út spátímann.“
Í október í fyrra voru meginvextir Seðlabankans 1%. Hagdeild Landsbankans átti von á að lækkunarferlinu væri lokið og að vextir yrðu óbreyttir fram á mitt ár 2022. Peningastefnunefnd bankans ákvað hins vegar að lækka vexti um 0,25 prósentur í nóvember og eru meginvextir nú því 0,75%.
„Verðbólgumarkmið Seðlabankans er 2,5% en verðbólga hefur nú verið fyrir ofan efri vikmörk markmiðsins (4%) í fjóra mánuði og þrýstingur fer vaxandi á peningastefnunefndina að bregðast við. Við teljum líklegt að nefndin láti fyrst reyna á önnur stýritæki til að slá á þensluna á fasteignamarkaði áður en gripið verður til stýrivaxtahækkunar.
Við eigum von á að nefndin taki fyrsta skrefið í vaxtahækkunum á 3. ársfjórðungi og hækki vexti um 0,25 prósentur á fundi nefndarinnar í ágúst, en einungis einn reglubundinn fundur er fyrirhugaður á þeim ársfjórðungi.
Búast má við að það dragi jafnt og þétt úr framleiðsluslakanum þegar líður á spátímabilið og stýrivextir verði hækkaðir í smáum skrefum í 2,75% í lok spátímans,“ segir ennfremur í hagspá hagdeildar Landsbankans.