Íslendingar eru ekki dæmdir til að búa við háa verðlagningu þrátt fyrir að hagkerfið sé lítið. Flutningskostnaður er samt nokkur og hefur hann sín áhrif.
Þetta sagði Thomas Philippon, prófessor í hagfræði við New York-háskóla, á fjarfundi sem ASÍ, BHM og BSRB efndu til í dag. Þar fór hann yfir niðurstöður bókar sinnar „The Great Reversal“ þar sem hann fer yfir áhrif aukinnar fákeppni í Bandaríkjunum og hvernig sérhagsmunagæsla hefur veikt samkeppnisyfirvöld og regluverk með tilheyrandi áhrifum á lífsgæði.
Philippon hefur talað um að markaðir séu ekki frjálsir þegar regluverkið er veikt. Hann var spurður hvernig hann metur stöðuna hér á landi í ljósi fámennis og lítils hagkerfis. Hvort örlög íslensku þjóðarinnar séu að hún þurfi að greiða meira fyrir þjónustu en önnur lönd. Einnig var hann spurður hvernig stjórnvöld geta haldið markaðnum frjálsum.
Prófessorinn, sem var valinn einn af merkustu hagfræðingum undir 45 ára af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum árið 2014, sagði lítil hagkerfi fela í sér bæði bölvun og blessun. Að búa við lítið hagkerfi í dag ætti ekki að skipta of miklu máli. Hann sagði engu að síður ljóst að lítil lönd á borð við Ísland geta ekki haft yfir mörgum fyrirtækjum að ráða í öllum greinum atvinnulífsins. Eftir því sem þjóðir eru stærri sé þeim mun auðveldara að byggja upp gott samkeppnisumhverfi. Hann sagði í þessu samhengi þörf á því að fá fleiri erlend fyrirtæki hingað til lands.
Prófessorinn var einnig spurður út í heilbrigðiskerfið á Íslandi og hvort við eigum að passa okkur á samkeppni eða skorti á henni í kerfinu.
Hann svaraði því þannig að heilbrigðiskerfi án regluverks gangi ekki upp. Hann sagði regluverkið slæmt í Bandaríkjunum en betra í Evrópu og bætti við að ekkert heilbrigðiskerfi gangi upp án verðstýringar. Þar af leiðandi geti kerfið ekki gengið upp án miðstýringar. Um leið og verðstýring sé komin þurfi regluverk að vera til staðar.
Umfjöllun um bók Philippons í grein Financial Times.